„Ég neita engum að koma á klósettin til mín, en þetta pirrar mig. Þetta er ekkert sjálfgefið. Ég sé rútu fyrir mér stoppa í sjoppu í Reykjavík og hleypa út á klósettið. Þar held ég að yrði sagt eitthvað,“ sagði Kristberg Jónsson, rekstaraðili Baulunnar í Borgarfirði, en hann hefur ásamt fleirum hafið umræðu um hvort eðlilegt sé að bjóða upp á aðstöðu á salernum víðsvegar um landið án þess að gjald komi fyrir.
„Nei, enda við erum ekkert að rukka fyrir þetta. Það er bara spurningin hvernig farið er að þessu. Þetta er að byrja og ég veit að uppi í Hraunfossum er kominn baukur og sumir borga í hann og aðrir ekki. Það er bara eins og gengur og gerist. Þetta voru bara hugleiðingar. Mér finnst að það þurfi að taka á þessu einhvern veginn,“ sagði Kristbjörn aðspurður hvort teknar hefðu verið upp viðræður við ferðaskrifstofurnar um að þær komi að þessu kostnaði.
Kristbjörn segist hafa rætt þetta við rekstraraðila á Snæfellsnesi og að hann hafi séð dagskrá ferðahóps þar sem einn dagskrárliðurinn var „pissustopp“ í umræddum söluskála. „Mér finnst bara svo lítið mál að fararstjórarnir sjái um kynna þetta fyrir fólki,“ sagði Kristbjörn og bætti við: „Þetta kostar orðið stórpening þessi pappír og kostar vinnu að sjá um þetta ef menn reyna að halda þessu snyrtilegu. Svo geta menn rifist um það hvað þeim finnst snyrtilegt og ekki.“
„Ég var nú mest að þessu til að koma af stað smá-umræðu og við erum með blað á milli klósettanna inni hjá okkur þar sem við bendum fólki á að sjoppur landsins rekist ekki á klósettunum einum saman. En við erum ekkert að banna fólki að nota klósettin. Við höfum svosem fengið viðbrögð við því að sumu fólki finnst þetta dónalegt. Konan mín samdi þetta bréf og þetta er ekkert dónalegt. Þetta er bara til að vekja fólk til umhugsunar um þetta eins og ég sagði bæði við hann og annan um daginn að ég var úti í Ameríku og þar þurfti ég að borga einn dollar á útikamar og mér fannst það allt í lagi því það var fólk sem var að hugsa um þetta.“
Hann segir auðvitað alltaf spurningu hvort hægt sé að rukka fólk fyrirfram, enda margir sem fari á salernin áður en þeir fari inn á matsölustaðinn eða í verslun. „Þetta er kannski baramálefni sem við sem eigum þessa staði og þessir ferðaþjónustuaðilar tölum saman um,“ sagði Kristbjörn.
Fleiri aðilar hafa tekið sig til og hengt upp miða á salernum sínum. Þannig miði hangir einmitt uppi í Hönnubúð í Reykholti. Þar segir: „Vinsamlegast athugið að salernin eru eingöngu ætluð viðskiptavinum okkar. Sjoppur landsins eru því miður ekki reknar á salernunum eingöngu.“ Í frétt á Skessuhorni má sjá viðtal við rekstraraðila Hönnubúðar hér.