Maðurinn enn um borð í skipinu

Bandaríska rannsóknarskipið Knorr.
Bandaríska rannsóknarskipið Knorr. mbl.is

„Það er ekki enn staðfest hver þessi maður er, en það leikur sterkur grunur á að þetta sé okkar maður, hælisleitandi. Það liggur ekki fyrir hvort skipið ætlar að snúa til baka eða ekki,“ sagði Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, um stöðu máls mannsins sem fannst um borð í rannsóknarskipinu Knorr, en hann mun hafa farið um borð í skipið þegar það lá við Miðbakka í Reykjavík.

Kristín segir manninn ennþá um borð í skipinu.

Er skipið enn innan íslenskrar landhelgi?

„Þótt það væri komið út fyrir íslenska landhelgi geta þeir alltaf snúið við og skilað honum til hafnar en ef þeir taka ákvörðun um að fara eitthvað annað skiptir máli hvert þeir fara. Ef þeir fara til Danmerkur eða einhverra Schengen-landanna óska þeir eftir því að við tökum við viðkomandi til baka. Ef þeir fara hins vegar út fyrir Schengen, til dæmis til Bretlands eða Bandaríkjanna, kemur hann ekki til baka til Íslands,“ segir Kristín.

„Hann er búinn að segja hver hann er og það passar við listann hjá okkur yfir hælisleitendur þannig að það eru 90% líkur á að hann sé hælisleitandi.“

Kristín segir að ekki sé um að ræða annan þeirra aðila sem fóru um borð í flugvél Icelandair um daginn. Hún segir viðkomandi vera um tvítugt og að hann hafi oftar en fjórum sinnum reynt að smygla sér um borð í millilandaskip, að því gefnu að um sé að ræða þann sem hann segist vera.

Hún segir að lögreglan sannreyni nú hvort umræddur maður sé  enn á landinu og reynist hann horfinn fáist nokkuð vel staðfest að þetta sé umræddur hælisleitandi.

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert