Skógrækt ríkisins mótmælir harðlega upprekstri sauðfjár á Almenninga, sem er afréttur norðan Þórsmerkur. Skógræktin telur skynsamlegra fyrir upprekstrarhafa að halda áfram uppgræðslu landsins og beitarfriðun þar til það er skógi vaxið.
Talið er ljóst að féð muni sækja beint í birkinýgræðinginn á svæðinu m.a. á Þórsmörk og skaða þar með stórlega áratugalangt starf sem unnið hefur verið af ríkisstofnunum og sjálfboðaliðum.
Þetta kemur fram í grein sem Hreinn Óskarsson, hjá Skógrækt ríksins, skrifar og er birt á fréttavefnum dfs.is.
„Nú er hafinn flutningur á sauðfé á Almenninga. Það er afréttur norðan Þórsmerkur, sem er ein helsta náttúruperla og ferðamannaparadís landsins. Afrétturinn, sem talinn er óbeitarhæfur í nýlegri skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands, er ekki girtur af og getur sauðfé því runnið óheft inn á Þórsmörk, Goðaland og önnur friðlönd sem gróin eru birkiskógi eða eru að gróa. Hætta er á að slík beit skaði margra áratuga starf sjálfboðaliða og stofnana við endurheimt birkiskóga og gróðurs á Þórsmerkursvæðinu. Birkiskógar eru það vistkerfi sem þolir hvað best öskufall og því afar brýnt fyrir framtíðina að klæða land í nágrenni eldfjallanna Kötlu og Eyjafjallajökuls skógi og kjarri,“ skrifar Hreinn í greininni.
Hann tekur fram að Þórsmörk hafi verið friðuð af Fljótshlíðarbændum og falin Skógrækt ríkisins til umsjár árið 1919. Afrétturinn Goðaland hafi bæst við við friðlandið árið 1927.