Rekstrargjöld sem hlutfall af tekjum eru of há

Daníel Jakobsson bæjarstjóri á Ísafirði.
Daníel Jakobsson bæjarstjóri á Ísafirði. mbl.is

„Ljóst er að rekstur sveitarsjóðs er mjög næmur fyrir verðbólgu og gengismun, sem gerir það að verkum, að sé verðbólga umfram væntingar kemur það hart niður á rekstri bæjarins. Jafnframt er ljóst að rekstrargjöld sem hlutfall af tekjum aðalsjóðs eru of há og sérstaklega hlutfall launa af tekjum samstæðunnar, sem er 56%. Verkefnið framundan er því eftir sem áður að draga úr kostnaði og reyna að auka tekjur, sem verður aðeins gert með fjölgun íbúa og auknum atvinnutækifærum.“ Þetta sagði Daníel Jakobsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar við fréttavefinn Bæjarins besta, þegar hann var inntur skýringa á og viðbragða við slæmri afkomu fjármagnsliða í ársreikningi bæjarins fyrir síðasta ár, sem greint var frá í gær.

Tap á rekstri samstæðu Ísafjarðarbæjar, sem samanstendur af aðalsjóði og B-hlutafyrirtækjum s.s. vatnsveitu, fráveitu, þjónustuíbúðum á Hlíf og Tjörn, Fasteignum Ísafjarðarbæjar ehf. og höfnum Ísafjarðarbæjar, var um 300 milljónir króna, þar af um 260 milljónir í A-hluta, en þar eru þeir málaflokkar sem reknir eru fyrir skattfé, svo sem skólar, sundlaugar, félagsmál, bókasöfn, rekstur fasteigna og gatnakerfið. Af þessu 300 milljóna króna tapi eru reiknaðar afskriftir 162 milljónir, breyting á lífeyrisskuldbindingum 87 milljónir og áfallnar en ógreiddar verðbætur og gengismunur 150 milljónir. Niðurstaða rekstrar var þar af leiðandi jákvæð um 70 milljónir króna fyrir þessa liði, segir í frétt BB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert