Ofbeldi gegn konum er heimsfaraldur. 600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert. Þessu verður að breyta, segja Sameinuðu þjóðirnar sem í dag vekja athygli á þessu ástandi með appelsínugula deginum, þar sem fólk er hvatt til þess að klæðast appelsínugulu.
„Það er óhætt að segja að ofbeldi sé helsta ógn við heilsu og líf kvenna víða um veröld. Þess vegna erum við að halda upp á appelsínugula daginn í dag, 25. júlí,“ segir Hanna Eiríksdóttir verkefnastýra hjá UN Women á Íslandi
Hingað til hefur 25. nóvember verið helgaður baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, en Sameinuðu þjóðirnar telja einn dag á ári ekki nóg. Því verður 25. dagur næstu fimm mánaða, fram til 25. nóvember appelsínugulur dagur, en þá er alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundu ofbeldi. Að auki hvetja samtökin landsmenn til að birta myndir af sér í appelsínugulum fötum á Facebooksíðu UN Women á Íslandi.
Viljum ekki búa í samfélagi þar sem ofbeldi gegn konum viðgengst
„Tölfræðin segir okkur það að ofbeldi gegn konum er heimsfaraldur,“ segir Hanna. „5000 konur verða árlega fyrir svokölluðum heiðursglæpum, talan er eflaust hærri en þetta er það sem við höfum í höndunum. 600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert og þessu verðum við að breyta.“
„Þess vegna er appelsínuguli dagurinn mikilvægur , með honum eru SÞ og UN Women á Íslandi að hvetja fólk til þess að klæðast appelsínugulu og þannig sköpum við umræðu. Þannig breytum við hlutunum. Við erum öll sammála um það að það vill enginn búa í samfélagi eða heimi þar sem ofbeldi gegn konum viðgengst.“
UN Women (United Nations Entity for Gender Equality and the Empowerment of Women) er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur eingöngu í þágu kvenna og jafnréttis í þróunarlöndum og stríðsátakasvæðum.