„Varðandi Nubo get ég lítið annað sagt en að það sé ágætt, ef menn ætla að tjá sig um þessi mál, að þeir kynni sér þau. Við höfum boðið Ögmundi að koma og kynna sér það sem við erum að bögglast með. Hann hefur ekki þegið það boð og það vekur furðu mína,“ sagði Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, um þá umræðu sem er í Morgunblaðinu í morgun um málefni Huang Nubos og Grímsstaða á Fjöllum.
„Við erum með áhugavert verkefni sem við ætlum að sjá hvort hægt er að gera að veruleika og það eru af sjálfsögðu ákveðin skilyrði af okkar hálfu sem þarf að uppfylla og hvort það verður kemur í ljós en samstarfið hefur gengið vel hingað til og ég vil hvetja alla aðila til að hafa sig hæga í umræðunni og vera ekki með getgátur og staðhæfingar sem ekki eiga við rök að styðjast. Þegar samkomulag liggur fyrir þá verður það kynnt fyrir ríkisstjórn og öllum aðilum sem að þessu koma því við viljum af sjálfsögðu gera þetta í sátt við allt og alla og þá geta menn metið þetta í heild sinni og tekið afstöðu til þess,“ sagði Bergur Elías.
„Það er í sjálfu sér hið besta mál en ég vænti þess þá að hann muni nýta sér tímann til að kynna sér hvernig málið er statt og hvernig það hefur verið unnið og að hverju er stefnt. Ef menn hafa þær upplýsingar og afla sér þeirra þá er það hið jákvæðasta mál að þetta skuli tekið upp í ríkisstjórn,“ sagði Bergur Elías um að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ætli að taka málin upp á ríkisstjórnarfundi á föstudag.
„Það sem er í þessu ... og eðli málsins samkvæmt þá get ég ekki tjáð mig um þessi mál. Það er verið að leggja ákveðin drög að þessum samningum og menn þurfa náttúrlega að fara yfir þau báðum megin, en um leið og það liggur fyrir þá verður upplýst hvað þar er. En það er alveg skýrt af hálfu sveitarfélaganna að við tökum ekki áhættu og erum ekki áhættusækin í slíkum verkefnum,“ sagði Bergur Elías þegar hann var spurður hvort tryggt væri í samningum við Huang Nubo að það kæmi erlent fjármagn inn í landið vegna framkvæmda á Grímsstöðum á Fjöllum.