„Frekar glaður að vera ennþá á lífi“

Járnstykkið sést hér á röntgen-mynd sem tekin var af Atla …
Járnstykkið sést hér á röntgen-mynd sem tekin var af Atla í gær.

„Ég var að slá garð með bróður mínum og fann allt í einu eitthvað skjótast úr safnpoka vélarinnar og í hálsinn á mér, undir hökuna, með ógnarkrafti,“ segir Atli Viðar Gunnarsson, 16 ára Hafnfirðingur, um ótrúlega lífsreynslu sem hann lenti í í gærdag. „Ég hélt að þetta væri steinn, en ég datt í jörðina við höggið og fann mikið til.“ Í ljós átti eftir að koma að 3 sentímetra stjörnuljós hafði skotist djúpt inn í háls Atla og sat þar fast.

Bróðir Atla Viðars kom hlaupandi að og sá að það var gat undir hökunni á honum. Bræðurnir brunuðu í kjölfarið upp á slysadeild.

„Fyrst þegar ég kom þangað vildu þau ekki taka mynd af þessu og ætluðu að senda mig heim. En af því að ég fann svo til, sem þau skildu ekkert í af því við héldum að þetta hefði verið steinn sem fór í mig, var loks ákveðið að taka mynd.“

Það ótrúlega kom svo í ljós við myndatökuna að þriggja sentímetra langt stykki var fast inni hálsinum á Atla Viðari. „Þetta var sem sagt stykki úr stjörnuljósi sem sláttuvélin hafði skotið inn í hálsinn á mér, en stykkið fór í gegnum safnpokann á vélinni og þaðan í mig,“ segir Atli Viðar. Járnið hafði farið svo djúpt inn í hálsinn á Atla að ekkert af því stóð út og gatið á hálsinum því einu ummerkin.

„Stykkið var eins og krókur í laginu og fast undir tungunni og því ekki hægt að toga það út. Þess vegna þurfti ég að fara heim og fór ekki í aðgerð fyrr en núna í morgun,“ segir Atli. En í aðgerðinni var stykkið skorið út úr hálsi hans.

En hvernig leið Atla í gær á meðan hann beið eftir að komast í aðgerðina í morgun?

„Það var vissulega óþægileg tilfinning að vita af þessu inni í hálsinum, ég viðurkenni það,“ segir hann. „Það var líka frekar óþægilegt að sjá röntgen-myndina af þessu fyrst.“

Atli Viðar vill brýna fyrir fólki að hreinsa til í görðum sínum eftir áramót og fjarlægja stjörnuljós sem þar kunna að liggja. „Kraftmikil sláttuvél getur léttilega þeytt hlutum á mörg hundruð kílómetra hraða í þann sem er að slá.“

„Svo heppinn að það er ekki fyndið!“

Og hann telur sig heppinn að ekki fór verr.

„Ef þetta stykki hefði farið þremur sentímetrum neðar inn í hálsinn á mér væri ég lamaður í dag,“ hefur Atli Viðar eftir læknum sínum. „Ég er ótrúlega heppinn og er frekar glaður að vera ennþá á lífi, ég trúi þessu eiginlega ekki ennþá. Ég er svo heppinn að það er ekki fyndið!“

 „Ég á erfitt með að kyngja eftir aðgerðina en á vonandi eftir að ná mér að fullu,“ segir Atli.

Foreldrar Atla Viðars, Gréta Jónsdóttir og Gunnar Ingibergsson, eru að vonum ánægð að ekki fór verr. „Þau eru ekkert smá ánægð,“ segir Atli.

Atli Viðar á sjúkrahúsinu í dag, eftir aðgerðina þar sem …
Atli Viðar á sjúkrahúsinu í dag, eftir aðgerðina þar sem járnbúturinn var fjarlægður.
Járnbúturinn var um 3 sentimetrar að lengd.
Járnbúturinn var um 3 sentimetrar að lengd.
Hér má sjá járnstykkið og hvar það var í hálsi …
Hér má sjá járnstykkið og hvar það var í hálsi Atla Viðars.
Atli Viðar Gunnarsson telur sig heppinn að ekki fór verr …
Atli Viðar Gunnarsson telur sig heppinn að ekki fór verr er hann fékk stjörnuljósið í hálsinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert