Íslendingar ekki veikgeðja

Huang Nubo.
Huang Nubo. mbl.is/Ernir

Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo hefur verið mikið í umræðunni hjá fólki síðustu misserin vegna fjárfestingaverkefna hans á Grímsstöðum og hugsanlega í Reykjavík. Í vikunni fjölluðu margir fjölmiðlar, þar á meðal Vísir og DV, um ummæli sem Nubo lét falla á hátíð hjá CEIBS viðskiptaskólanum í Sjanghæ. Var haft eftir frétt hjá the Washington Times að Nubo hefði sagt Íslendinga vera veikgeðja og sjúka. 

Halldór Berg Harðarson, nemi í Kína, benti á að þýðing á orðum Nubo væri röng og að hann hefði ekki talað um íslendinga sem veikgeðja. Benti hann á kínverska frétt um málið og sagði að merking orða Nubo væri mun nær því að þýða að „íslenskt samfélag sé veikt og í sárum. [Orðið] veikgeðja er gildisdómur um geð okkar og innræti en orðið veikur þarf alls ekki að þýða það.“

Undir þetta tekur Geir Sigurðsson, forstöðumaður Asíusetur Íslands. Segir hann að réttast væri að þýða fréttina um Nubo á eftirfarandi hátt: "Með tilvísun til nýlegrar efnahagskrísu Íslendinga segir Huang Nubo þá vera veika og að á meðan þeir eru í slíkum sárum finna þeir til ótta þegar valdamikill og öflugur ungur einstaklingur stígur fram á sjónarsviðið."

Það sé því ljóst að orð Nubo hafa verið tekin úr samhengi og að á fyrrnefndri hátíð hafi hann ekki talað um Íslendinga sem veikgeðja eða veika á geði. Orð hans megi frekar skilja á þann hátt að Íslendingar séu veikburða eftir hrunið, þ.e. misst kraft. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert