„Þetta eru mikil vonbrigði,“ segir Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, en Hæstiréttur hefur hafnað kæru hans, Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur og Rúnars Björns Herrera Þorkelssonar þar sem þess var krafist að kjör forseta Íslands í kosningum 30. júní 2012 verði ógilt.
„Mér finnst þetta gamaldags hugmyndafræði sem þarna skín í gegn, forræðishyggja yfir fötluðu fólki,“ bætir hann við. Kæra þremenninganna laut að þeirri ákvörðun kjörstjórna að fatlaðir fengu ekki að njóta hjálpar aðstoðarmanns eða trúnaðarmanns að eigin vali heldur þurftu að merkja kjörseðil með aðstoð eins af kjörstjórnarmönnum í viðeigandi kjördeild. Þeim sem ekki féllust á það og kröfðust þess að fá að njóta aðstoðar trúnaðarmanns að eigin vali var meinað að kjósa.
Frétt mbl.is: Kærum vegna kosninga hafnað