Ekki hefst undan að framleiða matsveppi ofan í landann um þessar mundir. Á Íslandi er einungis eitt fyrirtæki sem framleiðir sveppi, Flúðasveppir á Flúðum. Um málið er fjallað á sunnlenska fréttamiðlinum dfs í dag.
„Hér er allt vitlaust að gera, við önnum einfaldlega ekki eftirspurn. Við framleiðum 12 tonn á viku af ferskum sveppum og það dugar greinilega ekki til ofan í landsmenn enda hafa allir verið að grilla í sumar í blíðunni og notað sveppi frá okkur,“ sagði Georg Ottósson, sveppabóndi á Flúðum.
Fólk hefur tekið eftir því að í verslunum fáist ekki lengur íslenskir sveppir, heldur sveppir frá Hollandi og Póllandi
„Því miður, við eigum ekki meira af sveppum og getum ekki gert betur, þetta er bara veruleikinn, sem við búum við,“ sagði Georg við dfs í dag.