Fagna afmæli á flótta frá Alcatraz

„Það er góð stemning í hópnum, við höfum hitt mikið af sjósundsfólki og elstu sundklúbbana sem starfa á svæðinu. Mikil hefð og menning er í kringum sjósund á svæðinu og því áhugavert fyrir okkur að heimsækja staðinn,“ segir Árni Þór Árnason, einn þriggja frækinna sundkappa sem munu á laugardag synda frá Alcatraz eyju-til vesturstrandar Bandaríkjanna.

Þeir Benedikt Hjartarson, Árni Þór Árnason og Jón Sigurðarson lögðu upp í ferð vestur til að synda leiðina frægu, en hún var flóttaleið þriggja strokufanga sem hugðust flýja Alcatraz-fangelsið á sundi í júní árið 1962. Því eru rétt um 50 ár liðin frá flóttatilrauninni frægu. 

Sundið hefst kl 09.10 um morguninn en þá er siglt með skipi út að eyjunni sem geymir hið alræmda fangelsi og þar hoppa menn í sjóinn og synda svo í land í miklum straum og frekar köldum sjó eða um 13 gráðu heitum. „Við skelltum okkur í sjósund klukkan 6 í morgun og erum því búnir að smakka á seltunni hér. Það kom okkur á óvart að hann er svipað kaldur og heima en hann er talsvert saltari. Þetta lítur mjög vel út,“ segir Árni.

Vonandi ekki á matseðli hákarlanna

Ekki er hægt að segja til um sundtímann fyrir fram. „Sundið getur tekið allt frá 50 mínútum og allt upp í 5 klukkutíma. Það fer eftir straumum hverju sinni, en mér skilst að straumar séu hagstæðir á laugardag þannig að þetta ætti að verða tiltölulega þægilegt sund fyrir okkur,“ segir Árni Þór. 

Þess  má geta að á svæðinu er auðugt sjávardýraríki en þar á meðal er hvíthákarlinn, en sundmennirnir óttast ekki að rekast á hann. „Þeir eru frekar étnir sem eru í göllum, hákarlarnir halda að þeir séu selir á sundi,“ segir Árni Þór og hlær. „Við vonum bara að við séum ekki á matseðlinum hjá hvíthákarlinum þennan daginn,“ segir Árni Þór slakur gagnvart hættum sjávar á sundinu.

Sjósundskappar hvaðanæva úr heiminum taka sig reglulega til og synda leiðina. „Þetta er sund fyrir vana sundmenn, algengast er að synt sé í blautgöllum, en við munum hins vegar synda á sundskýlunum einum fata enda vanir að vera þannig búnir,“ segir Árni Þór en hann og félagar hans eru allir vanir sjósundsmenn. Benedikt Hjartarson lauk við Ermarsundið árið 2008.  Árni reyndi það í fyrra, en varð að hætta sundi vegna meiðsla eftir 9 ½ tíma og 36.5 km sund. 

Fagnar sextugsafmæli með óvenjulegum hætti

„Ferðin er þó farin að frumkvæði Jóns, sem varð 60 ára á árinu og fékk þá hugmynd að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni þess. Úr varð að fara þessa ferð sem er óvenjuleg og hressandi leið til að fagna afmælinu,“ segir Árni Þór. 

Þeir félagarnir vonast til þess að geta smám saman byggt upp ríka sjósundshefð á Íslandi líkt og gerst hefur í kringum strendur San Francisco. „Þetta er alltaf að verða vinsælla og vinsælla en þegar við byrjuðum fyrir allmörgum árum síðan þóttum við vera hálfklikkaðir að standa í þessu,“ segir Árni Þór. „Það hefur hins vegar gerbreyst, nú sér fólk hversu heilsubætandi sjósundið er. Það er bæði gott fyrir æðakerfi og húð að því gefnu að farið sé varlega,“ segir Árni Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert