„Við hörmum þessa hækkun og ljóst er að hún mun enn frekar fæla viðskiptavini frá fyrirtækjum í miðborginni,“ segir Björn Jón Bragason talsmaður hóps kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg um nýlega hækkun stöðumælagjalda í miðborginni og víkkun gjaldskyldutíma. Hann segir að með sama áframhaldi muni verslun við Laugaveg líða undir lok.
Gjaldskyldutími á laugardögum á svæðum 1, 2 og 4 er nú frá 10 til 16. Gjaldsvæði 1 mun kosta 225 kr. á klst. í stað 150 kr. og gjaldsvæði 2 og 4 mun fara úr 80 kr. í 120 kr. á klst. Nemur hækkunin á gjaldsvæði 1 50%.
„Við eigum í mikilli samkeppni við önnur verslunarsvæði á höfuðborgarsvæðinu þar sem greitt aðgengi er auk nægra gjaldfrjálsra bílastæða,“ segir Björn Jón og vísar þar meðal annars til Síðumúla, Ármúla, Skeifunnar auk verslunarmiðstöðva. „Borgin kýs að innheimta ekki bílastæðagjöld á þessum svæðum en gerir það aftur á móti í miðborginni,“ segir Björn Jón.
Dressman hverfur
„Hækkun af þessum toga gerir ekki annað en að hefta aðgengi og veikja þannig verslun á svæðinu,“ segir Björn Jón. „Mikill viðskiptaflótti er á svæðinu og stórum og stöndugum fyrirtækjum á svæðinu fækkar stöðugt. Í því samhengi má nefna Dressman sem fer úr miðbænum með haustinu, en sú verslun hefur lengi verið meðal þeirra stærstu í miðbænum,“ segir Björn Jón.
Að hans mati er miðborg Reykjavíkur ekki að öllu leyti sambærileg við borgir víða í Evrópu. „Í Reykjavík er ekki sú mikla umferð gangandi vegfarenda sem finnst erlendis, þar sem fólk kemur gagngert til að ganga á milli búða og versla,“ segir Björn Jón. „Borgaryfirvöld verða að horfast í augu við þann raunveruleika að fólk kýs að ferðast um á sínum eigin bíl, þó að auðvitað sé jákvætt að Íslendingar noti líka aðra samgöngumáta. Þetta er hins vegar sá raunveruleiki sem við búum við og það þarf að huga að því hvernig fólk getur komist í verslun miðbæjarins þrautalaust,“ segir Björn Jón.
Framtíðarhorfurnar svartar
Hann leggur fram aðrar lausnir á bílastæðavanda miðbæjarins. „Okkur finnst æskilegt fyrirkomulag sem tekið hefur verið upp í Bretlandi og víða í Evrópu, að afnema gjaldskyldu og hafa þess í stað klukkur sem bílstjórar koma fyrir í gluggum bifreiða sinna. Þannig er hægt að takmarka dvöl bifreiða í stæðum á hentugan máta. Ég er á þeirri skoðun að notast ætti við klukkur af þessu tagi á öllum stæðum í eigu borgarinnar,“ segir Björn Jón en Akureyringar hafa að hans sögn notast við þetta fyrirkomulag með góðum árangri.
Hann segir framtíð verslunar í miðbænum ótrygga. „Með sama áframhaldi er ekki langt í það að verslun við Laugaveginn líði undir lok. Við höfum séð sömu þróun víða í Evrópu þar sem húsnæði stendur autt og neglt er fyrir alla glugga á stöðum sem áður voru iðandi af lífi,“ segir Björn Jón. „Skemmst er að minnast þess að miðstöð verslunar á höfuðborgarsvæðinu var fyrir 30-40 árum í Kvosinni. Hún er algjörlega horfin þaðan og ekki eru heldur mörg ár síðan margar verslanir stóðu við Hverfisgötuna,“ segir Björn Jón.