Sjómenn „toppa forstjóra“ í launum

Sjómenn eru tekjuhærri en forstjórar.
Sjómenn eru tekjuhærri en forstjórar. mbl.is/Kristinn

„Það fyrst sem maður rekur augun í er að sjómenn eru að toppa forstjóra í launum,“ segir Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar en tekjublaðið kom út í morgun. 200 tekjuhæstu sjómennirnir eru að jafnaði með 2,4 milljónir kr. í mánaðarlaun en forstjórarnir með 2,2 milljónir.

Jón bendir á að tekjur næstráðenda hafi hækkað milli ára, í fyrra voru meðallaun 200 efstu 1,7 milljónir en í ár séu þau 2 milljónir. Þá hækki laun lækna lítillega. „Það sem fólk mun horfa á og stingur í stúf er hvað laun efstu manna í öllum flokkum eru að hækka frá því í fyrra og hve margir forstjórar eru með há laun. Fólk mun eflaust spyrja sig að því, þegar það horfir yfir listann og sér hæstu launin, hvort það sé komið svona mikið launaskrið og hvort 2007 sé að koma aftur,“ segir Jón.

Jón kom fram í morgunþætti Rásar 2 í morgun og vakti þar meðal annars athygli á því að laun millistjórnenda væru að hækka umtalsvert, eða að meðaltali um 300 þúsund á síðasta ári. Einnig að laun lækna hefðu hækkað um 100 þúsund á síðasta ári, en árið þar á undan stóðu þau í stað.

Í tekjublaðinu eru birtar upplýsingar um tekjur 3.000 Íslendinga, unnar úr álagningarskrá ríkisskattstjóra.

Hörður tekjuhæsti forstjórinn

Samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar fékk Daði Þorsteinsson hæstu laun sjómanna á síðasta ári, ef miðað er við skattskyldar tekjur, 6.197 þúsund krónur á mánuði. Næst á eftir honum koma Sturla Einarsson skipstjóri með 4.761 þúsund kr., Magnús Ómar Sigurðsson skipstjóri með 4.449 þúsund kr., Arnþór Hjörleifsson stýrimaður með 4.275 þúsund kr. og Guðlaugur Jónsson skipstjóri með 4.028 þúsund kr.

Af forstjórum fyrirtækja var Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tekjuhæstur með 10.253 þúsund krónur á mánuði. Á eftir honum er Finnur Árnason, forstjóri Haga, með 6.245 þúsund kr., því næst koma Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, með 6.051 þúsund kr., Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, með 5.871 þúsund kr. og Helgi Vilhjálmsson, forstjóri Góu og KFC með 5.290 þúsund kr.

Jakob Már Ásmundsson, framkvæmdastjóri hjá Straumi, er tekjuhæsti starfsmaður fjármálafyrirtækja með 7.668 þúsund kr. Því næst kemur Sigurður Arnar Jónsson, forstjóri Motus, með 3.504 þúsund kr., þá Jóhann Tómas Sigurðsson, forstöðumaður hjá MP banka, með 3.459 þúsund kr., Kolbeinn Árnason hjá slitastjórn Kaupþings með 3.438 þúsund kr. og Ásmundur Tryggvason, forstöðumaður hjá Íslandsbanka, með 3.194 þúsund kr.

Efst í flokknum „ýmsir menn úr atvinnulífinu“ er Guðbjörg Astrid Skúladóttir, eigandi Klassíska listdansskólans, með 22.263 þúsund kr. á mánuði. Tekjuhæsti næstráðandinn er Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri hjá Samherja, með 13.764 þúsund kr. og tekjuhæsti sveitarstjórnarmaðurinn Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, með 2.908 þúsund kr.

Tekjuhæsti forstjóri ríkisfyrirtækis er Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, með 1.590 þúsund kr. í mánaðarlaun og á eftir honum kemur Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, með 1.517 þúsund kr. Tekjuhæsti lögfræðingurinn er Ársæll Hafsteinsson hjá AH lögmönnum með 3.094 þúsund kr. Af heilbrigðisstarfsmönnum situr Björn Magnússon, yfirlæknir í Neskaupstað, í efsta sæti með 3.572 þúsund kr. og tekjuhæsti fjölmiðlamaðurinn er Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, með 2.063 þúsund kr. 

Sigurður Sigurjónsson leikari fékk hæstu launin í flokki listamanna, 1.253 þúsund kr. í mánaðarlaun. Á eftir honum koma Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) leikari með 1.055 þúsund kr., Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins, með 1.029 þúsund kr., Yrsa Sigurðardóttir, verkfræðingur og rithöfundur, með 1.021 þúsund kr. og Pétur Jóhann Sigfússon leikari með 957 þúsund kr.

Tekjuhæsti íþróttamaðurinn er Annie Mist Þórisdóttir, tvöfaldur heimsmeistari í Crossfit, með 1.792 þúsund kr.

Forsíða tekjublaðs Frjálsrar verslunar sem kemur út í dag.
Forsíða tekjublaðs Frjálsrar verslunar sem kemur út í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert