„Það er ekkert launungamál að þetta tengist starfslokum mínum hjá Marel. En laun mín hjá Landsvirkjun eru alveg gefin upp í ársreikningi og þeim er hægt að fletta upp,“ sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sem trónir efstur yfir forstjóra landsins í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. En þar er Hörður sagður með 10.253 þúsund á mánuði á síðasta ári.
„Þau eru gefin upp í dollurum en eru 1,4-1,5 milljónir á mánuði. Það stendur nákvæmlega í reikningnum,“ sagði Hörður.
Samkvæmt ársreikningi Landsvirkjunar 2011, sem má finna hér, var Hörður með 179 þúsund dollara í laun og hlunnindi á síðasta ári. Miðað við gengi dagsins í dag eru það 22,3 milljónir króna yfir allt árið eða um 1.861 þúsund á mánuði.