Lýsingu óheimilt að verðbæta lán

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Í gær var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Bjarnþórs Erlendssonar gegn Lýsingu hf. vegna bílasamnings sem var að hálfu gengistryggður og að hálfu í íslenskum krónum.

Í niðurstöðum dómsins segir að Lýsingu hafi ekki verið heimilt að innheimta verðtryggingu þar sem ekki kom fram í lánasamningi að lánið væri verðtryggt. Lýsingu var heldur ekki heimilt að innheimta breytilega vexti, líkt og gengur með óverðtryggð lán, þar sem slíkt var heldur ekki tekið fram í samningnum.

Lýsing hf. hafði á meðan málið var í ferli fallist á allar kröfur stefnanda varðandi gengistryggða hluta lánsins og endurgreitt honum 409.446 krónur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum lánþega í dag.

Í tilkynningunni segir einnig: „Nú hefur dómur fallið er varðar íslenska hluta lánsins, og er Lýsingu skv. dómsorði óheimilt að innheimta verðbætur á þann hluta láns. Jafnframt er tekið fram, að Lýsingu er óheimilt að endurreikna íslenska hluta lánsins skv. lögum nr. 151/2010. Skal Lýsing því endurgreiða stefnendum kr. 591.769,- auk dráttarvaxta, til viðbótar við það sem áður var greitt.

Dómari fellst því á það með Samtökum lánþega og stefnendum, að endurreikningur lána til samræmis við reiknireglur laga 151/2010, er andstæður æðri lögum.

Stjórnvöldum ber því tafarlaust, að laga reiknireglu laganna að skýru fordæmi æðri laga, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 600/2011 og nú nýfallin dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Lánþegar landsins, bæði einstaklingar og fyrirtæki, geta ekki beðið þar til stjórnvöld og fjármálastofnanir fá niðurstöðu í öllum þeim dómsmálum sem þeim hentar. Lög voru sett á veikum grunni Hæstaréttardóms nr. 471/2010 og því ber að breyta þeim tafarlaust til samræmis við sterkan grunn sem myndaður er af fjölmörgum dómum og lögfræðiálitum síðan.“

Í dómsorðum segir: „Af hálfu dómarans er fallist á það með stefnda að stefnandi gat ekki átt von á því að hann fengi vaxtakjör sem væri betri en gengur og gerist. Ekki hefur hins vegar verið í ljós leitt að stefndi hafi við samningsgerðina komið því á framfæri við stefnanda að verðtrygging væri forsenda þeirra vaxtakjara sem honum stóðu til boða.“

Töldu að ákvæði í gjaldskrá nægðu til að gilda í skriflegum samningi

Stefndi bendir einnig á að í gjaldskrá hans komi fram að samningar til lengri tíma en 60 mánaða beri verðtryggða vexti. Það er mat dómarans að slíkt ákvæði í gjaldskrá geti ekki réttlætt innheimtu verðtryggingar séu engin ákvæði í samningi aðila eða greiðsluáætlun sem benda til þess að slíkt hafi verið ætlunin.

Þá byggir stefndi á því að stefnanda hafi mátt vera ljóst að íslenski hluti lánsins væri verðtryggður þar sem það hafi komið fram á greiðsluseðlum en stefnandi hafi verið búinn að greiða af láninu í yfir fjögur ár áður en hann kom fram með athugasemdir vegna verðtryggingarinnar og hafi því sýnt af sér tómlæti.“

Dómari féllst ekki á það að stefnandi hefði sýnt af sér tómlæti með því að mótmæla ekki verðtryggingu lánsins fyrr en dómar hefðu fallið vegna gengistryggðra lána.

Verða að bera hallann af óskýrum einhliða samningi

Áfram segir í dómnum: „Það er álit dómarans að í samningi aðila komi ekki nægilega skýrt fram að um sé að ræða verðtryggðan samning að því er varðar íslenska hluta hans og er sú niðurstaða byggð á orðalagi samningsins. Áðurnefnd 4. gr. verður ekki skilin á annan hátt en að þar sé eingöngu verið að ræða um tengingu við gengi gjaldmiðla. þrátt fyrir að helmingur lánsins sé bundin við íslenskar krónur þá verður ekki talið að tilvísun í ákvæðnu til vísitölu sé nægileg til þess að talið verði að íslenski hlutinn sé verðtryggður. Stefndi er sérfróður aðili andstætt stefnanda og verður að telja að hann verði að bera hallann af því þegar skilmálar sem samdir eru einhliða af honum eru óskýrir.“

Dómarinn dæmdi Lýsingu hf. til að greiða stefnanda þær verðbætur sem Lýsing hf. innheimti á grundvelli samningsins til 5. júní 2011, samtals 591.769 kr., auk vaxta eins og nánar greinir í dómsorði.

Verður að taka fram ef vextir eiga að vera breytilegir

„Það er mat dómarans að ákvæði í gjaldskrá um breytilega vexti eigi einungis við sé tekið fram í samningi eða eftir atvikum greiðsluáætlun að vextir séu breytilegir. Eins og rakið hefur verið kemur fram í 2. mgr. 7. gr. samningsins að á útgáfudegi leigureiknings skuli vextirnir endurskoðaðir fyrir það tímabil sem reikningurinn tekur til og af því má ráða að ætlunin sé sú að þeir séu breytilegir.

Í gjaldskrá stefnda er það rakið að breytingar á lánskjörum stefnda kunni að hafa áhrif á vexti og í gjaldskránna er vísað í greiðsluáætlun sem málsaðilar eru sammála um að sé hluti samnings aðila. Það er mat dómarans að þar með sé fram komin nægileg tilvísun til þess með hvaða hætti vextir séu breytilegir,“ segir í niðurstöðum dómsins sem Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp.

Dómsorð:

„Stefndi, Lýsing ehf., greiði stefnanda, Bjarnþóri Erlendssyni, 591.769 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6 gr. sömu laga, frá 28. júní 2011, til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.151.400 kr. í málskostnað.“

Lýsing hafði ekki heimild til að innheimta verðbætur af bílaláni …
Lýsing hafði ekki heimild til að innheimta verðbætur af bílaláni þar sem ekki var tekið fram í lánasamningi að lánið væri verðtryggt. mbl.is/Ómar
Í lánasamningi var hvorki tekið fram að lán væri verðtryggt, …
Í lánasamningi var hvorki tekið fram að lán væri verðtryggt, né að breytilegi vextir skildu gilda. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert