„Það lítur út fyrir að það verði ljómandi fínt veður um helgina,“ segir Kristín Hermannsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Búist er við rólegri norðlægri átt í dag og 12-22 stigum, hlýjast inn til landsins um land allt. Skýjað verður með köflum um austanvert landið fram eftir degi en annars léttskýjað.
Þá er gert ráð fyrir rólegri vestlægri átt á morgun og að það verði léttskýjað en þykkni upp vestanlands annað kvöld. Á sunnudag verður að öllum líkindum hlýjast á norðausturlandi, en smám saman mun þykkna upp um vestanvert landið og um kvöldið er spáð súld eða rigningu á suðvesturhorninu.
Kristín varar við því að nóttin verði köld. „Það gæti orðið kalt, 4-9 stig, þar sem það verður alveg heiðskírt og frekar lítill vindur. Þeir sem ætla að sofa í tjaldi þurfa að klæða sig vel.“