Vel heppnuð gleðiganga í Færeyjum

Hinsegin kórinn frá Íslandi tróð upp á Gay Pride í …
Hinsegin kórinn frá Íslandi tróð upp á Gay Pride í Færeyjum í dag og var vel tekið. Ljósmynd/Sigurður Júlíus Guðmundsson

Hinsegin kórinn tók í dag þátt í Gay Pride í Þórshöfn í Færeyjum og tróð að göngu lokinni upp við miklar vinsældir. Talið er að um 5-6 þúsund manns hafi tekið þátt í göngunni í dag, en í Færeyjum eru ennþá talsverðir fordómar gagnvart samkynhneigð og réttindabaráttan komin skammt á veg. Þessi mikla þátttaka er talin mikilvægur áfangi í baráttugöngu hinsegin fólks þar í landi.

Ekki einungis tók kórinn þátt í göngunni og tróð upp, heldur kom kórinn fram á útvarpsstöðinni Rás 2 í Færeyjum.

„Þetta tókst bara virkilega vel. Skipuleggjendur hefðu orðið rosalega ánægðir ef það hefðu verið um þúsund manns en lögreglan sagði að það hefðu verið um fimm til sex þúsund þannig að þetta tókst frábærlega,“ sagði Ásta Ósk Hlöðversdóttir, formaður Hinsegin kórsins.

„Bara virkilega vel. Við erum með svona skemmtilega hittara eins og Barbie Girl sem hittu algjörlega í mark,“ sagði Ásta Ósk um viðtökur Færeyinga við kórnum.

Gangan minnti meira á kröfugöngu en gleðigöngu

„Alls ekki. Við sáum bara gleði. Það er þó ekki hægt að segja annað en að þessi ganga sé ólík íslensku göngunni og hún einkenndist af kröfuspjöldum og líktist meira 1. maí göngu. Þarna eru ekki beint atriði heldur hópur manna að koma saman til að krefjast aukinna mannréttinda fyrir hinsegin fólk en þrátt fyrir það var mikil gleði og þetta var litrík og skemmtileg ganga,“ sagði Ásta aðspurð um hvort kórmeðlimir yrðu varir við fordóma á staðnum.

„Við sungum í útvarpinu áðan á Rás 2 hjá þeim og svo á morgun erum við að fara að syngja í sjónvarpinu eftir tónleika sem við höldum kl. 20 á morgun sem eru á sama stað og hinsegin listsýning sem er norrænt samstarfsverkefni sem er í gangi og fjallar um hvað er náttúrulegt. Svo höldum við tónleika á sunnudag, sem eru hluti af opinberu Ólafsvöku prógrammi og eru klukkan fjögur á sunnudag á útisviði,“ sagði Ásta Ósk.

Kórinn hefur stefnt að ferð til Færeyja frá stofnun

Kórinn hefur undanfarna mánuði stefnt að þessari ferð og var hún strax við stofnun kórsins síðasta haust eitt af markmiðum hans. Með þessu vill kórinn veita stuðning í verki við réttindabaráttu hinsegin fólks í Færeyjum, hjá okkar nánustu frændum í Evrópu. Hinsegin dagar hafa ekki verið haldnir í Færeyjum síðan 2007 og staðan er því miður sú að margir samkynhneigðir þar í landi kjósa fremur að flytja til Kaupmannahafnar og lifa lífi sínu þar fremur en í Færeyjum vegna fordóma og skilningsleysis.

Á efnisdagskrá kórsins voru í bland íslensk og færeysk lög, en stjórnandi Hinsegin kórsins er tónlistarkonan Helga Margrét Marzellíusardóttir. 18 kórmeðlmir af 25 eru í Færeyjum.

Borgarstjóri í bleikum jakkafötum

En það voru fleiri Íslendingar en meðlimir Hinsegin kórsins sem studdu við bakið á réttindabaráttu samkynhneigðra Færeyinga og fjölskyldna þeirra í dag því Jón Gnarr Kristinsson, borgarstjórinn í Reykjavík, tók þátt í göngunni og var vel tekið af viðstöddum. Sama hefur Jón raunar gert hér heima þau ár sem hann hefur gegnt embætti borgarstjóra, bæði skiptin eftirminnilega í kvenmannsfötum. Í Færeyjum var þó enginn kjóll nærri heldur kom borgarstjórinn fram í bleikum glansandi jakkafötum.

Frá Gay Pride göngunni í Færeyjum. Talið er að milli …
Frá Gay Pride göngunni í Færeyjum. Talið er að milli 5-6 þúsund manns hafi tekið þátt í göngunni í dag. Ljósmynd/Sigurður Júlíus Guðmundsson
Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr Kristinsson, tók þátt í Hinsegin …
Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr Kristinsson, tók þátt í Hinsegin dögum í Færeyjum og var vel tekið af Færeyingum. Ljósmynd/Sigurður Júlíus Guðmundsson
Frá Gay Pride göngunni í Þórshöfn í Færeyjum í dag.
Frá Gay Pride göngunni í Þórshöfn í Færeyjum í dag. Ljósmynd/Sigurður Júlíus Guðmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka