Lögreglan á Suðurnesjum vill beina þeim tilmælum til fólks að það fari ekki á bátum of nálægt grindhvalavöðunni sem nú er undan ströndum Njarðvíkur. Sé það gert skapast hætta á því að hvalirnir syndi upp á land.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum hafa verið nokkur brögð að því að einhverjir hafi viljað skoða hvalina í návígi á bátum. Hafi nokkrir af grindhvölunum brugðist við því með því að stefna að landi. Þó hafi tekist að koma í veg fyrir að hvalina dagaði uppi á fjörunni.