Hittu enga hákarla á leiðinni

Sjó­sund­skapp­arn­ir fræknu sem lögðu upp í háska­för frá Alcatraz fang­elsi að vest­ur­strönd Banda­ríkj­anna í gær eru komn­ir í land. Þeir Bene­dikt Hjart­ar­son, Árni Þór Árna­son og Jón Sig­urðar­son syntu leiðina án allra vand­kvæða, enda aðstæður eins og best verður á kosið. Sem bet­ur fer urðu eng­ir há­karl­ar á vegi fé­lag­anna, en auðugt sjáv­ar­líf er á svæðinu og há­karl­ar þar á meðal.

„Sundið gekk ótrú­lega vel og var kannski auðveld­ara en við héld­um. Okk­ur rak ekki mikið af leið þannig að við náðum til­tölu­lega beinni línu í sund­inu sem gerði það að verk­um að við náðum að klára á góðum tíma,“ seg­ir Bene­dikt Hjart­ar­son einn fé­lag­anna þriggja sem tóku þátt í sund­inu. „Aðstæður gátu ein­fald­lega ekki verið betri, bæði var sjór­inn góður og veður ákjós­an­legt. Þetta var því þægi­legt og æðis­lega gam­an,“ seg­ir Bene­dikt en þeir luku sund­inu á um þrem­ur stund­ar­fjórðung­um. Sundið get­ur tekið allt frá 40 mín­út­um upp í 5 klukku­stund­ir, allt eft­ir sjáv­ar­straum­um, lík­am­legu ástandi sund­manna og öðrum aðstæðum.

Að hans sögn er sundið vin­sælt, en mik­ill fjöldi sund­manna synti leiðina í ár en Alcatraz sundið er skipu­lagður viðburður sem hald­inn er einu sinni á ári. „Fólk kem­ur hingað hvaðanæva að úr heim­in­um til að synda og það mynd­ast ein­stak­lega skemmti­leg­ur andi, þótt aðstæður séu skraut­leg­ar í start­inu þegar menn reyna að taka sér stöðu í sjón­um og ryðjast hver fram yfir ann­an,“ seg­ir Bene­dikt.

Stolt­ir en af­brýðisam­ir

Að hans sögn var mik­il breidd í hópn­um sem synti leiðina. „Þarna var fólk af báðum kynj­um á öll­um aldri, ým­ist í blaut­bún­ing­um eða á sund­skýl­unni,“ seg­ir Bene­dikt en þeir fé­lag­ar syntu á sund­skýlu enda van­ir því úr sjó­sundi á Íslandi. 

Ferðin var far­in fyr­ir til­stilli Jóns Sig­urðar­son­ar sem varð sex­tug­ur á ár­inu og ákvað að fagna áfang­an­um með þess­um frum­lega hætti. Gam­an er að segja frá því að hann komst á verðlaunap­all í sund­inu. „Af­mæl­is­barnið sjálft hlaut medal­íu í sín­um ald­urs­flokki, við erum rosa­lega stolt­ir fyr­ir hans hönd en drulluabbó líka,“ seg­ir Bene­dikt og hlær. 

Þeir fé­lag­ar koma svo aft­ur til Íslands á þriðju­dags­morg­unn eft­ir hina vel heppnuðu ferð „Þetta var ein­stök upp­lif­un. Það gladdi okk­ur líka að finna fyr­ir áhuga fólks heima og hvernig það fylgd­ist með eft­ir því sem mögu­legt var,“ seg­ir Bene­dikt. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert