Langvarandi þurrkar fyrr í sumar, slæmt vorhret og birkifeti sem enn eitt árið gerir óskunda í berjalöndum út um Eyjafirði gera það sameiginlega að verkum að útlit er fyrir að berjasumarið verði langt í frá eins og best verður á kosið. Sigurbjörg Snorradóttir á Krossum í Dalvíkurbyggð var á ferðinni á heimasvæði sínu, Þorvaldsdal, um liðna helgi og segir hún í samtali við Vikudag að útlitið sé langt í frá gott. Birkifeti, sem er fiðrildalifra hefur enn eitt sumarið gert óskunda í berjalöndum á svæðinu.
Eitt og eitt svæði inn á milli er skárra að sögn Sigurbjargar en þegar ljóst að engin stóruppgrip verða norðan heiða þegar kemur að berjatínslu. „Það er verulega svekkjandi,“ segir hún því útlitið hafi alls ekki verið svo slæmt fyrr í sumar. Sigurbjörg segir að nánast engin krækiber séu sjáanleg nú og þar leggi eflaust saman vorhretið í maí sem var fremur slæmt, langvarandi þurrkar og birkifetinn sem leggst á berjalyng og nærist á því fyrrihluta sumars. Sigurbjörg segir að rigning undanfarna daga geti bætt ástandið, en þá helst þannig að birti til inn á milli og sólin skíni.
„Á tímabili leit út fyrir að þetta yrði prýðilegt berjaár, en mér sýnist að breyting hafi orðið þar á hér fyrir norðan og það er mjög leiðinlegt fyrir okkur berjaáhugafólk,“ segir hún.
Sjá frétt Vikudags í heild hér.