Stór grindhvalavaða er nú í Leynisvík út af Akranesi og að sögn lögreglunnar á Akranesi er um nokkur hundruð hvali að ræða.
Talið er að hvalirnir hafi komið að landi árla dags og haldið sig á svipuðum slóðum um hríð.
Hundruð grindhvala voru undir Stapanum neðan við byggðina í Dalshverfi í Innri-Njarðvík á laugardaginn og er á vefsíðu Skessuhorns leitt að því líkum að um sömu hvalina sé að ræða. Þar segir einnig að ekki sé vitað til þess að svo stór grindhvalavaða hafi sést við Akranes í seinni tíð, þótt fáeinir hvalir hafi sést.