Vel bar í veiði hjá hópi háhyrninga við Flatey á Breiðafirði en þar léku þeir sér og átu makríl af bestu lyst. Leikur skepnanna náðist á myndskeið og þar má sjá þá koma mjög nálægt landi Frá þessu er greint á Reykhólavefnum.
„Við vorum að koma til Flateyjar og þegar við komum í Hafnarsundið sáum við að margt fólk í eynni var að horfa á eitthvað úti í sjónum,“ segir Björn Samúelsson hjá Eyjasiglingu við Reykhólavefinn.
Jón Þór Sturluson í Byggðarenda í Flatey tók upp myndband af hvölunum og setti inn á YouTube. „Þetta voru fimm háhyrningar, þar af tveir tarfar, sem voru að ná sér í makríl. Líka tóku þeir sel og hentu honum upp í loftið eins og sést í myndskeiðinu, hann var vankaður á eftir. Hvalirnir fóru síðan úr Hafnarsundinu og inn á Flateyjarsund,“ segir Björn.