„Mikilvægasta liðið á ólympíuleikunum?“

Íslensku landsliðsmennirnir Róbert Gunnarsson, Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson …
Íslensku landsliðsmennirnir Róbert Gunnarsson, Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson í leiknum á móti Argentínu á ólympíuleikunum í London í gær. mbl.is/Golli

Tímaritið Time gerir íslenska handboltalandsliðinu góð skil á vef sínum undir yfirskriftinni „Mikilvægasta liðið á ólympíuleikunum? Hvers vegna, þetta er íslenskur handbolti“.

Blaðamaðurinn Sean Gregory fylgdist með íslenska landsliðinu í handknattleik leggja Argentínumenn á leikunum í gær og spjallaði hann m.a. við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands.

Gregory fer yfir glæsilegan árangur landsliðsins á ólympíuleikunum í Peking í Kína fyrir fjórum árum, þegar íslensku strákarnir komu heim með silfur um hálsinn og þær móttökur sem þeir fengu á Íslandi við heimkomuna. Gregory segir einnig frá þeim miklu erfiðleikum sem Íslendingar stóðu frammi fyrir í kjölfar efnahagshrunsins - aðeins nokkrum mánuðum eftir glæsta sigra í Peking.

Í greininni kemur fram að íslenska karlalandsliðið í handbolta hafi átt þátt í þeim jákvæðu umskiptum sem urðu á Íslandi í kjölfar bankahrunsins. Ólafur Ragnar segir að Ísland hafi orðið fyrir áfalli en að handboltalandsliðið hafi átt stóran þátt í því að þjóðin ákvað að stíga skrefið fram á við.

„Í okkar augum er handbolti ekki aðeins íþrótt, heldur kjarni þjóðarsálarinnar,“ hefur Gregory eftir Ólafi Ragnari og blaðamaðurinn spyr í framhaldinu hvort einhver geti sagt slíkt hið sama um bandarísk ólympíulið.

Ólafur Ragnar segist ekki aðeins vera staddur í London sem aðdáandi íslenska landsliðsins, heldur vilji hann votta því virðingu fyrir þann góða árangur sem það hafi þegar náð.

Þá hvatti Ólafur Ragnar Bandaríkjamenn til að hefja handboltaiðkun. „Þetta er skemmtilegur leikur,“ segir forsetinn í lok greinarinnar.

Greinina má lesa hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert