Margir kaupmenn og fasteignaeigendur við Laugaveginn í Reykjavík eru mjög óánægðir með hækkun bílastæðagjalda í miðborginni, en hækkunin tekur gildi í dag.
Frank Michelsen, úrsmiður og kaupmaður á Laugaveginum, telur að hækkunin eigi eftir að valda kaupmönnum í miðbæ Reykjavíkur miklum skaða. „Stæðunum fer stöðugt fækkandi í miðborg Reykjavíkur. Borgaryfirvöld eru alltaf að gera aðgengið að búðunum erfiðari. Áður fyrr var t.d. mikil umferð fram hjá minni búð á morgnana. Nú er þetta algjörlega horfið,“ segir Frank, en hann telur að þetta megi m.a. rekja til erfiðs aðgangs bíla í miðbæ Reykjavíkur.
Frank segir borgaryfirvöld vera full af hroka, en hann telur að með þessum aðgerðum sé verið að vega að eldri borgurum og hreyfihömluðum. „Hvert á fólkið sem á erfitt með gang að fara? Á það bara að fara eitthvert annað?“ segir Frank, en hann telur að viðhorf borgaryfirvalda eigi einnig eftir að bitna á þeim sem búa í úthverfum og á landsbyggðinni.