Ákveðið hefur verið að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþingismaður annist verkefnisstjórn á vegum þriggja ráðuneyta, innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis og utanríkisráðuneytis, um kortlagningu og stefnumótun á sviði mannréttindamála. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.
Verkefnið er unnið í nánum tengslum við Landsáætlun í mannréttindamálum og er einkum tvíþætt í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 4. maí síðastliðnum:
1) Að kortleggja mannréttindastarf íslenskrar stjórnsýslu, jafnt innan landsteinanna sem utan. Kannað verði hvernig kröftum Íslands er varið á erlendri grund og gerðar tillögur um með hvaða hætti íslensk stjórnvöld geta haft afgerandi áhrif á þróun mannréttindamála.
2) Að móta og leggja fyrir ríkisstjórn stefnu um framtíðarskipan Mannréttindadómstóls Evrópu í samhengi við þær tillögur sem ræddar hafa verið á vettvangi Evrópuráðsins. Stefnan skal taka mið af áliti innlendra sérfræðinga en einnig afstöðu samstarfsþjóða Íslands, einkum Norðurlandanna. Sérstaklega skal yfirfara hvernig ákvörðunum Mannréttindadómstólsins eigi að fylgja eftir, einkum með tilliti til lagasetningar og sambands þjóðþinga við dómstólinn.