Reykjavíkurborg og Vegagerðin gengu í dag frá tímamótasamningi um átak í gerð hjólreiða- og göngustíga í Reykjavík. Með samningnum er skilgreint hvaða leiðir heyri til grunnkerfis en á þeim leiðum skiptist kostnaður við framkvæmdir til helminga. Kostnaður við framkvæmdir er áætlaður um tveir milljarðar króna.
Undirritun samningsins fór fram yst á Geirsnefi þar sem á næstu mánuðum verður komið fyrir áningarstað nýrrar hjólaleiðar sem tengja mun nýjar hjólreiða- og göngubrýr yfir Elliðaárósa. Það voru þeir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sem undirrituðu samninginn í dag.
„Eigum við ekki að segja að það sé verið sé að gera Reykjavíkurborg að draumaborg fyrir hjólreiðarfólk,“ segir Dagur.
Hann segir að þetta sé í fyrsta skipti sem Reykjavíkurborg og Vegagerðin taki höndum saman og ætla að verja á næstu árum tveimur milljörðum í að bæta hjólreiðastígakerfi borgarinnar.
„Við leggjum áherslu á að auka val fólks varðandi samgöngumáta,“ segir Dagur. Tilgangurinn sé m.a. að gera hjólreiðar öruggar, þægilegar og hraðar.