Minnisblaðið sem talað er um

Kínverski auðjöfurinn Huang Nubo hefur stofnað tvö fyrirtæki á Íslandi, …
Kínverski auðjöfurinn Huang Nubo hefur stofnað tvö fyrirtæki á Íslandi, Zhongkun Europe og Zhongkun Grímsstaðir. Bæði eru þau til húsa að Skipagötu 12 á Akureyri. Í sama húsi rekur talsmaður hans, Halldór Jóhannsson, teiknistofu. Alþýðuhúsið er við hlið þess en þar hafa hin ýmsu verkalýðsfélög á svæðinu aðsetur. Skapti Hallgrímsson

„Eftir yfirferð yfir málið var það niðurstaða ráðuneytisins að veita umræddu félagi undanþágu en þess var sérstaklega getið að við afgreiðslu málsins hefði verið tekið tillit til þess að framkvæmdastjóri félagsins er íslenskur,“ segir í minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins um Grímsstaðamálið.

Málið varðar undanþágu frá búsetuskilyrðum vegna stofnunar fyrirtækisins Zhongkun Europe en formaður stjórnar er Huang Nubo og framkvæmdastjórinn talsmaður hans, Halldór Jóhannsson. Minnisblaðið var lagt fram á fundi ríkisstjórnarinnar 12. júní sl. og taldi Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra að með því hefði ríkisstjórnin lagt blessun sína yfir það.

Þau tíðindi urðu hins vegar í málinu í dag að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipa samráðshóp til að fara yfir málið.

Einn hafi heimilisfesti á Íslandi

Minnisblaðið er svohljóðandi:

„Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 134/1994 um einkahlutafélög er kveðið á um að a.m.k. einn stofnefnda félags skuli hafa heimilisfesti hér á landi nema ráðherra veiti undanþágu þar frá. Þá segir í 2. mgr. 42. gr. að minnst helmingur stjórnarmanna félags skuli vera búsettur hér á landi en ráðherra getur veitt frá því undanþágur. Skilyrðin eiga þó ekki við um þá sem búsettir eru innan EES-svæðisins, ríkisborgara OECD-ríkja, ríkisborgara aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga.

Ráðuneytið hefur undanfarið haft til meðferðar beiðni félagsins Zongkun Europe ehf. um undanþágu frá skilyrðum 3. gr. laga um einkahlutafélög þar sem félagið óskar eftir að tvö kínversk félög geti stofnað Zhongkun Europe ehf. hér á landi. Þá óskar félagið jafnframt eftir undanþágu frá búsetuskilyrðum 42. gr. laganna þannig að þrír Kínverjar geti setið í stjórn félagsins.

Ráðuneytið tók erindið til ítarlegrar skoðunar m.a. út frá því hvort rétt væri að skilyrða undanþáguna með einhverjum hætti, t.d. þannig að einn stjórnarmanna yrði að vera búsettur á Íslandi.

Í ljósi þeirra víðtæku undanþágu sem nú þegar er í gildi, líkt og rakið er hér að framan, taldi ráðuneytið ekki mögulegt að setja sem skilyrði að stjórnarmaður yrði að hafa búsetu á Íslandi. Þá þótti það ekki þjóna tilgangi að krefjast þess að stjórnarmaður væri búsettur innan þeirra svæða sem nú þegar hafa almennar undanþágur. Við vinnslu málsins kom einnig í ljós að erfitt er að færa rök fyrir því að gera búsetu á Íslandi að skilyrði sérstaklega í ljósi þess hve víðtæk almenn undanþága er þar frá.

Má í því sambandi t.d. benda á að íslenski félagarétturinn er byggður að mestu á dönskum rétti en þar var að finna sambærilegt skilyrði um búsetu sem Danir hafa nú afnumið. Þá hefur ráðuneytið í öllum tilvikum fallist á að veita undanþágur hafi verið eftir því sóst. Hafa undanþágur m.a. verið veittar til kínverskra ríkisborgara og mikilvægt að gæta að jafnræði við afgreiðslu mála enda hefði annars komið upp misræmi í afgreiðslu ráðuneytisins sem erfitt er að rökstyðja enda er ekki að finna skýringar á búsetuskilyrðinu, þ.e. tilgangi þess, í lögunum sjálfum eða lögskýringargögnum. Ætla má að tilgangur búsetuskilyrðisins hafi í upphafi verið sá að tryggja einhverskonar tengsl við landið og að auðvelda samskipti við félagið en segja má að þau sjónarmið samræmist illa núverandi lagaumhverfi í ljósi þess hversu víðtækar hinar almennu undanþágur frá búsetuskilyrðinu eru.

Eftir yfirferð yfir málið var það niðurstaða ráðuneytisins að veita umræddu félagi undanþágu en þess var sérstaklega getið að við afgreiðslu málsins hefði verið tekið tillit til þess að framkvæmdastjóri félagsins er íslenskur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert