Mögulegt að sannfæra Íslendinga eftir lausn evruvandans

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ásamt stækkunarstjóra Evrópusambandsins Stefan Füle.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ásamt stækkunarstjóra Evrópusambandsins Stefan Füle. mbl.is

„Fyrir það fyrsta erum við evrópsk, við eigum heima þar. En í annan stað að sama skapi, þrátt fyrir allar slæmu fréttirnar af evrunni, er það skoðun Íslendinga að þeir geti ekki haldið áfram inn í framtíðina með núverandi gjaldmiðil. Þeir þurfa nýjan gjaldmiðil sem verður stöðugur eins og evran verður í framtíðinni.“

Þetta segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í samtali við frönsku sjónvarpsstöðina France24 að spurður að því hvers vegna hann væri sannfærður um að tímabært væri fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.

Össur sagði ennfremur að Íslendingar þyrftu á erlendri fjárfestingu að halda og reynslan sýndi að þegar lítil ríki gengju í Evrópusambandið ykjust fjárfestingar og þá einkum frá öðrum ríkjum sambandsins. Þá sagði hann einnig aðspurður að hefðu Íslendingar verið í Evrópusambandinu þegar efnahagskreppan hófst hefði verið hægt að komast hjá verstu afleiðingum hennar.

Erfitt að sannfæra Íslendinga í dag

„Vinur minn forsetinn veit að ég hef stundum hér áður fyrr brotið harðar hnetur,“ sagði Össur aðspurður um þau ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í samtali við sömu sjónvarpsstöð að það yrði erfitt verk fyrir Össur að sannfæra Íslendinga um að rétt væri að ganga í Evrópusambandið.

„Það verður erfitt að sannfæra þjóðina eins og staðan er núna. En ég er algerlega sannfærður um að þegar vandamál evrunnar hafa verið leyst og við höfum þann möguleika að losna við krónuna, sem leiddi yfir okkur mörg vandamál, og taka upp evruna í framtíðinni þá held ég að það verði ekki of erfitt,“ sagði Össur og bætti við að það væru tiltölulega fá ár síðan mikill meirihluti Íslendinga hefði bæði viljað evruna sem gjaldmiðil og ganga í Evrópusambandið.

Spurður um mikla andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið í röðum íslenskra sjómanna sagði Össur hana í raun ekki vera hjá sjómönnunum sjálfum heldur hjá útgerðarmönnum sem væru öflugustu andstæðingar inngöngu í sambandið á Íslandi. „Þeir vilja sitja einir á Íslandi og ekki standa í neinni samkeppni, skiljanlega,“ sagði Össur.

Þá hafnaði hann því sem goðsögn að miðin í kringum landið fylltust af togurum frá Spáni og Portúgal ef Ísland gengi í Evrópusambandið. „Þá goðsögn er aðeins hægt að drepa við samningaborðið.“

Fiskveiðistjórnun Íslands betri

Einnig er rætt við Steingrím J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem segir Íslendinga hafa sýnt það í gegnum söguna að þeir hafi haldið vel utan um fiskistofna í íslensku efnahagslögsögunni. „Sem fiskveiðiþjóð erum við mjög háð fiskveiðum. Við erum meðvituð um mikilvægi þess að halda rétt á þessum málum og ég held að það sé almennt viðurkennt að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið er miklu árangursríkara og betra en til að mynda sjávarútvegur Evrópusambandsins.“

Þá er talað við Timo Summa, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, sem segir Evrópusambandið vinna að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfi sínu og óvíst sé hver niðurstaða þeirrar vinnu verði. „Þannig að viðræðurnar [við Ísland um sjávarútvegsmál] fara fram á grundvelli núgildandi löggjafar.“

Frétt France24

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka