Skráning í maraþon gengur vel

Frá Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra.
Frá Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra.

 Reykjavíkurmaraþonið verður haldið 18. ágúst nk. og hafa nú yfir 5.000 keppendur skráð sig til leiks. Það er þónokkur fjölgun síðan árið 2011 en á sama tíma í fyrra höfðu hátt í 3.500 manns skráð sig.

„Skráningin hefur gengið mjög vel og fólk hefur verið fyrr í að skrá sig,“ segir Gerður Þóra Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurmaraþonsins.

„Þá gengur áheitasöfnunin vel og er komin í tæpar 6,2 milljónir. Nú styttist líka í hlaupið og ágúst að byrja svo við búumst við að hún taki kipp þegar nær dregur,“ segir Gerður Þóra. En í fyrra söfnuðust rúmlega 43,6 milljónir króna.

Flestir hlauparar hlaupa til styrktar góðgerðarfélagi og eru nú um 119 góðgerðarfélög skráð í áheitasöfnunina. Góðgerðarfélög geta enn haft samband og óskað eftir að fá að vera með í áheitasöfnuninni til 10. ágúst og getur því enn fjölgað í þeim stóra hópi. Í fyrra voru það 138 góðgerðarfélög sem skráðu sig til leiks og höfðu þá aldrei fleiri góðgerðarfélög verið með.

Bjarný Þorvarðardóttir hefur safnað mestu núna, en hún hleypur fyrir Mænuskaðastofnun Íslands og hefur hún nokkurt forskot.

Hér er hægt að nálgast allar upplýsingar um hlaupið ásamt því að styrja þá einstaklinga og hópa sem taka þátt í því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert