Forsetinn settur í embætti í dag

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, verður settur í embætti við athöfn í Alþingishúsinu í dag klukkan 16. Þar með hefst fimmta kjörtímabil Ólafs Ragnars.

Dagskráin hefst með því að Lúðrasveit Reykjavíkur leikur ættjarðarlög á Austurvelli frá kl. 15.00.

Kl. 15.30 ganga gestir frá þinghúsinu til Dómkirkjunnar.

Athöfnin þar hefst með helgistund í umsjá biskupsins yfir Íslandi, séra Agnesar M. Sigurðardóttur.

Athöfnin í þinghúsinu verður með hefðbundnum hætti. Forseti Hæstaréttar, Markús Sigurbjörnsson, lýsir forsetakjöri og útgáfu kjörbréfs og mælir fram drengskaparheit að stjórnarskránni sem forseta er ætlað að undirrita.

Forseti Íslands gengur síðan fyrir forseta Hæstaréttar sem afhendir honum kjörbréfið með árnaðaróskum. Er forseti hefur veitt kjörbréfinu viðtöku býður hann forsetafrúnni að ganga með sér fram á svalir þinghússins þar sem hann minnist fósturjarðarinnar. Viðstaddir taka undir, bæði inni og úti, með ferföldu húrrahrópi. Lúðrasveit Reykjavíkur leikur „Land míns föður“ eftir Þórarin Jónsson. Að því loknu syngur Dómkórinn þjóðsönginn undir stjórn Kára Þormars.

Ríkisútvarpið verður með beinar útsendingar frá athöfninni.

Gjallarhorn verða við Alþingishúsið og Dómkirkjuna svo að þeir sem kunna að vera utan húss heyri það sem fram fer bæði í kirkju og þinghúsi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert