Sæferðir ehf. í Stykkishólmi segja það harðan og ómaklegan dóm að Náttúrufræðistofnun nefni siglingar Sæferða sérstaklega til sögunnar sem eina af skýringunum á því að arnarvarp við Breiðafjörð hafi ekki gengið sem skyldi í ár. Fyrirtækið bendir á að undanfarin ár hafi það arnarpar sem helst hafi verið fylgst með í skoðunarferðum Sæferða ekki komið unga á legg. Sæferðir hafi hins vegar ekkert með ófrjósemi parsins að gera.
Í yfirlýsingu frá Sæferðum vegna málsins segir að fyrirtækið hafi sótt um og fengið undanþágu frá gildandi lögum og reglum um vernd villtra dýra frá árinu 2000, eitt ferðaþjónustufyrirtækja, skilað tilskildum dagskýrslum og greinargerðum og lýst þannig í verki vilja til að virða friðhelgi arnarins á varptímanum og starfa í sátt og samlyndi við stjórnvöld landsins.
Í frétt Náttúrufræðistofnunar um arnarvarpið í ár sagði m.a. orðrétt: „Sæferðir, eitt helsta ferðaþjónustufyrirtækið við Breiðafjörð, gengur þar á undan með slæmu fordæmi og hefur siglt ólöglega að arnarhreiðrum og truflað fuglana á viðkvæmum tíma snemma vors.“
Sæferðir segja samstarf sitt við stjórnvöld hafa verið með ágætum fram að þessu. Sæferðir hafi mikla hagsmuni af því að fuglalíf á þessu svæði sé sem blómlegast, þar með talin afkoma arnarpara sem verpa við Breiðafjörð.
Sæferðir sóttu um undanþágu í ár með bréfi til Umhverfisstofnunar dagsettu 8. maí 2012. Umhverfisstofnun svaraði erindinu ekki fyrr en 11. júní en í millitíðinni höfðu Sæferðir hagað ferðum sínum í samræmi við skilyrðin sem fyrirtækinu höfðu verið sett undanfarin ár, enda ekkert komið fram sem benti til þess að stjórnvöld ætluðu að breyta afstöðu sinni til erindis fyrirtækisins, eftir að hafa veitt undanþáguna í 11 ár.
„Sæferðir áttu auðvitað að bíða eftir formlegri afgreiðslu erindis síns og biðjast hér með velvirðingar á því að hafa ekki gert það. Fyrirtækið hætti þegar í stað að sigla í grennd við arnarvarp, enda fylgdi sögu að Sæferðir hefðu verið kærðar til lögreglustjórans á Snæfellsnesi vegna málsins. Siglingaleið var breytt en þrátt fyrir skjót viðbrögð sætir fyrirtækið því að fá býsna harkalega meðferð á opinberum vettvangi af hálfu Náttúrufræðistofnunar,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins.
Sæferðir benda á að lengst af hefur verið fylgst með einu tilteknu arnarpari í fuglaskoðunarferðum fyrirtækisins og undanfarin 12 ár hefur parið komið upp einum unga, stundum tveimur en engum undanfarin þrjú ár. Á því kunna að vera náttúrulegar skýringar, eins og dæmin sanna. „Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að siglingar Sæferða hafi eitthvað með ófrjósemi parsins að gera. Í umfjöllun Náttúrufræðistofnunar um arnarvarp vorið 2012 kemur m.a. fram að arnarvarp hafi tekist fremur illa við Breiðafjörð og á Vestfjörðum, en vel við Faxaflóa,“ segir í yfirlýsingu Sæferða.
„Fróðlegt verður í framhaldinu að fylgjast með viðbrögðum stjórnvalda gagnvart öðrum sem stunda siglingar um Breiðafjörð á sömu slóðum og Sæferðir.
Sæferðir harma að Náttúrufræðistofnun kjósi að ganga svo fram sem raun ber vitni gagnvart fyrirtækinu,“ segir í yfirlýsingu sem Páll Kr. Pálsson, stjórnarformaður Sæferða, hefur sent fyrir hönd fyrirtækisins.