Stjórnarskráin ramminn sem hélt

Frá innsetningarathöfnninni í þinghúsinu í dag.
Frá innsetningarathöfnninni í þinghúsinu í dag. mbl.is/Eggert

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var settur inn í embætti í fimmta sinn í dag. Í ávarpi sínu við innsetningarathöfn í Alþingishúsinu sagði forsetinn m.a. að forsetakosningarnar hefðu verið gagleg vegferð sem skerpti sýn landsmanna á embættið.

„Á þessari stundu er því rétt að þakka öllum sem með framboði sínu og stuðningssveitum gerðu þjóðinni kleift að meta embættið,“ sagði Ólafur Ragnar.

Hann sagði forsetakjörið hafi verið í takt við þær lýðræðiskröfur nútímans.

„Lýðræðiskjarni stjórnarskrár og tíðarandi nýrrar aldar eru ótvíræðar vísbendingar um að sérhver forseti á að fagna því að athafnir hans og orðræða séu vegin og metin við endurnýjun umboðsins, einkum þegar umdeildar ákvarðanir hafa verið dagskrárefni, forsetinn vísað lögum frá Alþingi í dóm þjóðarinnar,“ sagði hann.

„Nýliðnar kosningar voru því gleðilegur vitnisburður um lýðræðisþróun. Í raun heilbrigðismerki á tímum endurreisnar,“ sagði Ólafur og bætti við að það sýni kosti núverandi stjórnarskrár.

„Í kjölfar bankahrunins veitti hún fólkinu í landinu fimm sinnum vald til að kveða upp sinn dóm. Í kosningum til Alþingis og sveitastjórna, í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og í nýlegu forsetakjöri. Engin önnur ríki í Evrópu hafa á þessum örlagaríku árum veitt almenningi úrslitavald í svo ríkum mæli,“ sagði forsetinn.

Hann sagði að þjóðin sé hinn æðsti herra og allar stofnanir og ráðamenn verði að lúta vilja hennar. „Í þessum efnum er stjórnarskráin ótvíræð. Ákvæðin skýr þótt orðalagið mætti vera einfaldara. Hún er ramminn sem hélt þrátt fyrir stéttaátök og kalda stríðið. Og veitti á nýliðnum árum svigrúm til að mæta kröfum mótmælenda og gera upp mál með atkvæðagreiðslum þjóðarinnar.“

Í ræðunni kom einnig fram í máli Ólafs að þjóðin vilji geta treyst Alþingi og öðrum stofnunum lýðveldisins. „Samstaða um stærstu mál í stað sífellds ágreinings er vísasti vegurinn til að endurvekja traustið sem löggjafanum er nauðsynlegt,“ sagði forsetinn.

Hann heitir því að allir þeir sem séu kjörnir til ábyrgðar að þeir taki upp nýja siði. Láti átökin víkja og raði verkefnum á þann veg að breiður stuðningðu liggi að baki ávörðunum.

„Með samstöðu að leiðarljósi getum við farsællega ráðið til lykta breytingum á stjórnarskrá, skipað sambúð okkar við aðrar þjóðir í traustar skorður, lagt grundvöll að öflugu efnahagslífi og velferð allra, skapandi menningu og menntun; gert Ísland að þeirri fyrirmynd velferðar, hagsældar og lýðræðis sem ungar kynslóðir dreymir um,“ sagði Ólafur.

„Vegferðin frá því ég undirritaði í fyrsta sinn eiðstaf forsetans hefur vonandi gert mig hæfari til að axla þá ábyrgð af auðmýkt, fært mér reynslu og þroska, þekkingu, umburðarlyndi og skilning, eiginleika sem nýtast munu á komandi tíð,“ sagði Ólafur við lok ræðunnar.

Ræða forsetans í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert