Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, var ekki viðstaddur embættistöku forseta Íslands í dag. Hann segir að það sé úrelt fyrirkomulag að forseti sé settur í embætti í Alþingishúsinu og lagt sé að þingmönnum að vera viðstaddir klæddir í kjól og hvítt.
„Hér er ekki um þinglega athöfn að ræða og þingmönnum ber engin skylda til að vera við innsetningu forseta í embætti. Nær væri að innsetningin færi fram á Þingvöllum að viðstöddum öllum þeim sem vildu vera þar til vitnis eða jafnvel í Þjóðmenningarhúsinu sem notað hefur verið til ýmissa stórviðburða sem skráðir verða á spjöld sögunnar,“ skrifar Björn Valur á bloggsíðu sína.
„Ólafur Ragnar Grímsson hefur nánast hótað því að afnema þingræði á Íslandi þegar honum hentar svo að gera og talað mjög fjálglega um vald forseta. Í því ljósi er það meira kaldhæðnislegt að hann skuli settur í embætti í sjálfu þinghúsinu sem hýsir elsta þjóðþing í heimi.
Honum hlýtur að vera skemmt við húrrahróp og fagnaðarlæti kjólfatakæddra þingmanna við innsetninguna í dag, honum til heiðurs.
Þar verð ég ekki,“ segir Björn Valur ennfremur.