Ummælin Heimi til skammar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Einar Smárason.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Einar Smárason.

Formaður Heimdallar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, segir aðalfund félagsins hafa verið boðaðan í samræmi við lög félagsins. „Það er vandséð hvað það kemur tímasetningu fundarins við þótt ball sé í Vestmannaeyjum daginn eftir eða hvernig það hefur áhrif á jafnræði framboðanna,“ segir Áslaug í yfirlýsingu vegna ummæla Heimis Hannessonar, sem ætlaði að bjóða sig fram gegn henni. Heimir sagði m.a. að „engin heilvita stjórn“ boðaði til aðalfundar sólarhring áður en Húkkaraballið hæfist og þjóðhátíð væri sett í Eyjum.

Þá segir Áslaug enga óvissu hafa verið um hvernig nýskráningar yrðu afgreiddar líkt og Heimir hélt fram í yfirlýsingu sinni í gær. „Nýskráningar í Heimdall fara fram í gegnum vef flokksins, xd.is, og var því engin óvissa um hvernig nýskráningar yrðu afgreiddar. Það hefur aldrei verið neinn vafi um að allar nýskráningar myndu skila sér í kjörskrá  á aðalfundinum. Þrátt fyrir sumarleyfi á skrifstofu flokksins voru starfsmenn hans boðnir og búnir að afhenda framboðunum félagatal og aðstoða við framkvæmd aðalfundarins. Ummæli Heimis um starfsmenn og forystu flokksins eru honum til skammar,“ segir Áslaug í yfirlýsingu sinni.

Þá segir hún: „Í stað þess að taka slaginn og berjast fyrir kjöri sínu skv. þeim leikreglum sem gilda kaus Heimir að ráðast með ómálefnalegum hætti á Sjálfstæðisflokkinn, framkvæmdastjóra flokksins og starf ungra sjálfstæðismanna. Slíkt er engum til framdráttar og mikilvægt að ungir sjálfstæðismenn láti af slíkum vinnubrögðum og starfi af heilindum að framgangi sjálfstæðisstefnunnar.“

Hér að neðan er yfirlýsing Áslaugar í heild:

„Ég sé mig knúna til að svara þeim ásökunum sem Heimir Hannesson hefur haft uppi varðandi aðalfund Heimdallar. Fundurinn var boðaður í samræmi við lög félagsins og aðalfundir félagsins hafa aldrei verið boðaðir með meira en viku fyrirvara. Það er vandséð hvað það kemur tímasetningu fundarins við þótt ball sé í Vestmannaeyjum daginn eftir eða hvernig það hefur áhrif á jafnræði framboðanna.

Sá fjölmenni hópur sem býður sig fram með mér til forystu í Heimdalli er hópur ungs fólks sem vill starfa af heilindum innan flokksins. Auk þeirra sem starfað hafa lengi í félaginu eru í þessum hópi fjölmargir nýir félagar sem ekki hafa komið að átökum liðinna ára og vilja taka þátt í öflugu félagsstarfi ungra sjálfstæðismanna.

Nýskráningar

Nýskráningar í Heimdall fara fram í gegnum vef flokksins, xd.is, og var því engin óvissa um hvernig nýskráningar yrðu afgreiddar. Það hefur aldrei verið neinn vafi um að allar nýskráningar myndu skila sér í kjörskrá  á aðalfundinum. Þrátt fyrir sumarleyfi á skrifstofu flokksins voru starfsmenn hans boðnir og búnir að afhenda framboðunum félagatal og aðstoða við framkvæmd aðalfundarins. Ummæli Heimis um starfsmenn og forystu flokksins eru honum til skammar.

Félagatal og fréttaflutningur

Hinn 26. júlí sl., kl. 15:29, sendi kosningastjóri framboðs Heimis mér tölvupóst og krafðist þess að fá félagatal félagsins afhent fyrir kl. 18:00 þann sama dag. Ég svaraði þeim pósti samdægurs og benti honum á að hann þyrfti að snúa sér til skrifstofu Sjálfstæðisflokksins, enda hefur hún umsjón með félagatali Heimdallar. Framboð Heimis hafði því samband við framkvæmdastjóra flokksins og fékk félagatalið afhent í kjölfarið. Eins og venja er í prófkjörum og öðrum kosningum innan flokksins var félagatalið afhent á pappírsformi, en ekki rafrænu formi, enda um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða sem mikilvægt er að fari ekki víða. Þessar upplýsingar voru því veittar með sama hætti og þegar um kosningar innan flokksins er að ræða.

Framboð mitt stjórnar ekki fréttaflutningi um framjóðendur og er því ekki hægt að kenna framboðinu mínu um fréttaflutning AMX sem birti greinarkorn um bakgrunn Heimis varðandi yfirlýstan og opinberan stuðning hans við inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er einkennilegt ef Heimir hefur ekki búist við því að bakgrunnur hans í stjórnmálabaráttu yrði til umræðu í kosningabaráttunni.

Framboðsfrest ber að virða

Eins og að framan er rakið var að öllu leyti staðið að kosningunum samkvæmt reglum og venjum. Hið eina óvenjulega var það að yfirlýstur mótframbjóðandi minn, Heimir Hannesson, hætti við að skila inn framboði. Í staðinn kom framboð til formanns eftir að framboðsfrestur hafði runnið út frá Ásgrími Hermannssyni, sem var á lista hjá Heimi. En þrátt fyrir að skila inn framboði eftir að framboðsfrestur var liðinn hafði hann ekki samband við neinn til að ganga úr skugga um að framboðið væri gilt, né lét ná í sig, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Rætt var við nokkra lögmenn, framkvæmdastjóra flokksins og tilvonandi formann kjörstjórnar á aðalfundinum vegna framboðs Ásgríms, þar sem fram kom mikilvægi þess að ekki sé vikið frá settum framboðsfresti, óháð því hversu lítill sá munur kann að vera, til þess að gætt sé jafnræðis fyrir alla þá sem hugðust skila inn framboði. Í framhaldi af því boðaði ég til stjórnarfundar til að taka afstöðu til framkominna framboða og skyldi hann fara fram kl. 23:15. Var samþykkt á þeim fundi að framboðið væri ekki gilt, enda hefði það borist of seint, og engar málefnalegar skýringar hefðu komið fram sem réttlættu að vikið væri frá lögum félagsins um að framboðum skyldi skila til stjórnar fyrir kl. 20.00 að kveldi mánudags sl.

Að lokum

Síðastliðin laugardag var haldinn fundur þar sem tveir fulltrúar frá hvoru framboði hittust og ræddu aðdraganda og framkvæmd kosninganna. Á þeim fundi voru engar athugasemdir gerðar við neitt af því sem fram kemur í yfirlýsingu Heimis. Fulltrúar Heimis höfðu frumkvæði að því á fundinum að framboðin létu vita ef einhverjir hnökrar kæmu upp og ræddu það sín á milli. Af hverju framboð Heimis gerði ekki athugasemd við þessi atriði á þeim fundi eða síðar, heldur gerði það með fréttatilkynningu til fjölmiðla, verður Heimir að svara fyrir.

Í stað þess að taka slaginn og berjast fyrir kjöri sínu skv. þeim leikreglum sem gilda kaus Heimir að ráðast með ómálefnalegum hætti á Sjálfstæðisflokkinn, framkvæmdastjóra flokksins og starf ungra sjálfstæðismanna. Slíkt er engum til framdráttar og mikilvægt að ungir sjálfstæðismenn láti af slíkum vinnubrögðum og starfi af heilindum að framgangi sjálfstæðisstefnunnar.

Ungir sjálfstæðismenn mega ekki láta sundurlyndi veikja samtakamátt sinn nú á tímum verstu vinstristjórnar í Íslandssögunni. Ég býð alla þá sem vilja starfa í félaginu velkomna til starfa í Heimdalli á komandi kosningaári.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert