Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt og í morgun við að stilla til friðar á milli manna sem hafði orðið nokkuð heitt í hamsi við skemmtanahald. Að sögn lögreglu „gengu pústrar manna á milli“, engum varð verulega meint af og enginn var handtekinn vegna þessa.
Nokkuð er farið að fjölga á götum bæjarins því þjóðhátíðargestir streyma nú út í Eyjar. Hátíðin hefst með húkkaraballinu í kvöld og síðan taka við linnulaus hátíðahöld fram á sunnudag. Lögregla telur að 300 manns hafi komið út í Eyjar með fyrstu ferð Herjólfs í morgun.