Ofbeldismaðurinn sjaldan fjarlægður

850 verkefni vegna ofbeldis eða ófriðar á heimilum voru bókuð …
850 verkefni vegna ofbeldis eða ófriðar á heimilum voru bókuð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 2011. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Daglega allt árið um kring sinnir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu útköllum vegna heimilisofbeldis. Á síðasta ári voru alls bókuð 850 verkefni sem sneru að ofbeldi eða ófriði inni á heimilum og er það svipað og árið 2010, þegar um 900 bókanir voru skráðar. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um þróun mála fyrri hluta árs 2012 en bráðabirgðatölur benda þó til þess að ofbeldismálin séu færri það sem af er ári.

Stutt síðan farið var að skrá heimilisofbeldi sérstaklega

Áður fyrr voru ofbeldismál innan veggja heimilis skráð eins og hvert annað líkamsárásarmál. Í eðli sínu eru þessi ofbeldismál hins vegar talsvert ólík og árið 2006 var gerð gangskör að því að taka heimilisofbeldi fastari tökum. Síðan þá hafa slík útköll verið skráð sérstaklega. Hörður Jóhannesson, aðstoðaryfirlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að þessi mál séu oft erfið við að eiga.

Á bak við þau 850 tilvik sem skráð voru sem heimilisofbeldi árið 2011 eru margvíslegar aðstæður að sögn Harðar. Lögreglan hefur afskipti af ofbeldi eða ófriði í heimahúsum ýmist vegna þess að nágranni hringir og lætur vita eða einhver innan heimilisins biður um hjálp. Ekki eru alltaf á ferðinni langvarandi líkamsmeiðingar og kúgun maka, heldur getur t.d. verið um að ræða ungt fólk sem ógnar foreldrum sínum í kjölfar fíkniefnaneyslu, ofbeldi sem beitt er af fjölskyldumeðlimi með geðræn vandamál eða þegar sýður upp úr milli hjóna vegna forræðisdeilna eða skilnaðar,o.s.frv. „Þótt þetta sé alltaf alvarlegt þá er sem betur fer ekki mikið um grafalvarleg tilvik eins og þessi grófu og langvarandi ofbeldismál eru," segir Hörður.

Lögregla kölluð til í óþökk heimilisfólks

Í ársskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 2011 kemur fram að í um fjórðungi tilvika af 850 hafi líkamlegu ofbeldi verið beitt, en þar sem fólk hafi ekki verið að skaða hvert annað hafi dauðir hlutir fengið að finna fyrir því. Eignaspjöll og grófar hótanir fylgi oft sögunni. Stundum voru börn inni á heimilunum og segir í skýrslunni að það sé dapurlegur hluti af störfum lögreglu að koma að slíkum málum.

Það sem hins vegar gerir aðkomu lögreglu flóknari er að sögn Harðar sú staðreynd að þessi mál eiga sér stað inni á heimilum fólks, þar sem lögregla hefur takmarkað vald til afskipta. „Stundum kemur lögregla í óþökk þeirra sem inni á heimilinu eru. Þetta getur verið af öllu tagi, stundum er þetta drykkja á heimilinu sem leiðir til þess að fólk fer að rífast og slást og nágrannarnir láta vita en þegar lögregla kemur vill fólkið ekki tala við hana. Við kunnum líka margar sögur af því þegar bráir af fólki eftir helgina og það hættir við að vilja gera eitthvað í málinu."

Vísa fólki þangað sem það getur fengið hjálp

Það hve fjölbreytt þessi ofbeldis- og ófriðarmál á heimilum eru þýðir líka að það er engin ein lausn sem lögregla getur gripið til á vettvangi. Fyrst og fremst er reynt að stilla til friðar og afstýra meiðslum og eyðileggingu. Úrræðin sem lögreglan hefur eru fyrst og fremst að vísa fólki áfram eftir atvikum, t.d. á Kvennaathvarfið, eða kalla til barnayfirvalda ef velferð barna er í hættu. 

Um svipað leyti og byrjað var að skilja heimilisofbeldi frá öðrum líkamsárásarmálum í skrám lögreglu endurvakti Félagsmálaráðuneytið sérstakt meðferðarúrræði fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum. Úrræðið nefnist Karlar til ábyrgðar og hefur reynst vel, því frá 2006 til ársloka 2011 hafa 162 karlar leitað sér hjálpar. Ekki er hægt að skikka menn í meðferðina ef þeir vilja hana ekki sjálfir og lögregla hefur að sögn Harðar reynt að beina mönnum þangað, með litlum árangri þó. „Við áttum eyrnamerkt pláss þarna og höfðum tilvísunarrétt, en menn virtust ekki tilbúnir til þess. Einhverra hluta vegna eru fáir sem þiggja það eftir bein afskipti lögreglu.“

Austurríska leiðin lítið nýtt

Eitt er það úrræði sem verið hefur til staðar í rúmt ár en lítið hefur reynt á, en það er hin s.k. austurríska leið, sem Alþingi samþykkti sem lög í júní 2011. Samkvæmt austurrísku leiðinni hefur lögreglustjóri eða fulltrúi hans heimild til að fjarlægja ofbeldismanninn sjálfan af heimilinu og er hugsunin sú að styrkja réttarstöðu fórnarlambs ofbeldisins, sem þarf þá ekki að flýja heimili sitt í ofanálag við að vera beitt ofbeldi.

Sem fyrr segir hefur austurríska leiðin verið í gildi í rúmt ár en hefur aðeins tvisvar sinnum verið beitt á þeim tíma, nú síðast í maí. Auk þess nýtti lögreglan á Akureyri eitt sinn ákvæðið til að fjarlægja mann af heimili vegna ofbeldis, en þeirri ákvörðun var hnekkt í Héraðsdómi Norðurlands. 

174 konur og börn flýðu heimili sín í fyrra

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að miðað við þau mál sem komi inn á borð til þeirra eigi hún erfitt með að trúa því að ekki hefði verið hægt að beita þessu ákvæði oftar síðustu 14 mánuði. Árið 2011 dvöldu samtals 174 konur og börn í Kvennaathvarfinu sem ekki gátu búið heima hjá sér vegna ofbeldis. 

„Við vissum að við myndum áfram vera með fullt hús hjá okkur, að þetta myndi ekki hafa það afgerandi áhrif strax, en það eru vonbrigði að það hafi ekki gerst oftar. Mér finnst allavega úrræðið sorglega máttlaust ef tilfellið er að það sé fullnýtt svona."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert