Sjálfstæðisflokkur stærstur og Samfylkingin bætir við sig

mbl.is/Eggert

Fylgi ríkisstjórnarflokkanna eykst frá fyrra mánuði samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fram kom í kvöldfréttum RÚV að Sjálfstæðisflokkurinn væri þó enn með meira fylgi en flokkarnir tveir til samans.

Þá kemur fram að Samstaða, flokkur Lilju Mósesdóttur, hafi tapað ríflega átta prósenta fylgi frá því að framboðið var fyrst kynnt.

Samkvæmt Gallup mælist Samfylkingin nú með 21 prósents fylgi. Vinstri grænir mælast með rétt rúmlega 12 prósenta fylgi.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins er svipað og það hefur mælst síðustu mánuði en flokkurinn fær nú tæplega 37 prósenta fylgi. Þá mælist Framsóknarflokkurinn með 12,4%. 

Loks segir að nýju framboðin fjögur, Björt framtíð, Dögun, Hægri grænir og Samstaða, mælist með töluvert minna fylgi en fjórflokkurinn.

Björt framtíð sé eina framboðið sem næði manni inn á þing en framboðið rjúfi fimm prósenta múrinn í könnuninni og mælist með 5,2 prósent.

Af hinum flokkunum hafi Samstaða dalað mest, en flokkurinn mælist nú með tæplega þriggja prósenta fylgi. Hann fékk mest rúm 11 prósent þegar tilkynnt var um framboðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert