Fram kom í samtali frönsku sjónvarpsstöðvarinnar France24 við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, nýverið að erfitt yrði að sannfæra Íslendinga um að ganga í Evrópusambandið eins og staðan væri í dag. Hins vegar væri hann sannfærður um að það yrði ekki of erfitt þegar efnahagsvandamál evrunnar hefðu verið leyst.
Eins og staðan er í dag bendir hins vegar fátt til þess að lausn á efnahagserfiðleikum evrusvæðisins sé í sjónmáli og virðast vandamál svæðisins vera að aukast fremur en að tekist hafi að koma á þau bönd. Þá er einnig ljóst að töluvert langt er í land í viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið enda hefur til þessa nær eingöngu verið rætt um málaflokka sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem þegar hefur í raun verið samið um eða aðrar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
Óvíst með afdrif evrusvæðisins
Sem kunnugt er hafa efnahagserfiðleikar evrusvæðisins nú staðið yfir í þrjú ár sé miðað við árið 2009 og sér enn ekki fyrir endann á þeim. Alls óvíst er hvort og þá hvernig takist að leysa þann vanda sem steðjar að svæðinu og hafa áhyggjur af framtíð þess fremur aukist en minnkað samhliða því sem fleiri evruríki hafa neyðst til þess að óska eftir utanaðkomandi aðstoð.
Lausn á efnahagsvanda evrusvæðisins er þannig ekki í sjónmáli enn sem komið er en flestir virðast þó sammála um að evrusvæðið geti ekki lifað af við óbreytt fyrirkomulag og að eina leiðin til þess að bjarga svæðinu sé aukinn efnahagslegur og fjármálalegur samruni evruríkjanna. Menn greinir þó talsvert á um hversu langt sé nauðsynlegt að ganga í þeim efnum.
Einnig eru skiptar skoðanir um það hversu langan tíma það kunni að taka evrusvæðið að ná sér aftur á strik ef það lifir af yfirstandandi efnahagserfiðleika en flestir virðast þó telja að það tæki í það minnsta allnokkur ár. Angela Merkel, kanslari Þýskalands sagði þannig síðastliðið haust að það gæti tekið áratug að vinna bug á efnahagsvanda svæðisins.
Falla nær allir undir EES-samninginn
Umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið var send til Brussel sumarið 2009 um það leyti sem efnahagserfiðleikar evrusvæðisins hófust fyrir alvöru. Eins og staðan er nú hafa 18 samningskaflar í viðræðum við Evrópusambandið um inngöngu Íslands verið opnaðir af þeim 35 köflum sem þær snúast um. Af þessum 18 samningsköflum hefur tíu verið lokað til bráðabirgða.
Meirihluti þeirra tíu samningskafla sem lokað hefur verið falla að fullu undir EES-samninginn sem Ísland er þegar aðili að eða sex kaflar. Tveir til viðbótar falla að hluta til undir EES-samninginn og í einum, sem fjallar um réttarvörslu og grundvallarréttindi, hefur Ísland þegar innleitt nauðsynlegt regluverk í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
Einungis einn samningskafli sem lokað hefur verið fellur ekki undir EES-samninginn eða aðrar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands en hann snýr að utanríkis-, öryggis- og varnarmálum. Sé litið til þeirra 18 kafla í heild sem opnaðir hafa verið eru aðeins þrír sem ekki falla undir EES-samninginn, að hluta til eða í heild, eða aðrar alþjóðlegar skuldbindingar landsins.
Ferlið gæti staðið yfir í mörg ár enn
Eins og kunnugt er töluðu forystumenn ríkisstjórnarinnar upphaflega um að umsóknarferlið að Evrópusambandinu gæti tekið tiltölulega skamman tíma og var gert ráð fyrir að því yrði í það minnsta lokið áður en núverandi kjörtímabil yrði á enda. Hins vegar hefur nú legið fyrir um nokkra hríð að umsóknarferlinu yrði ekki lokið fyrir þingkosningar sem fram fara í síðasta lagi næsta vor.
Ljóst er annars af framansögðu að viðræðurnar við Evrópusambandið eru skammt á veg komnar en eins og áður segir falla þeir samningskaflar sem opnaðir hafa verið og lokað nær allir undir EES-samninginn eða aðrar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Á hinn bóginn eru erfiðustu kaflarnir eftir sem talið er að taka muni mestan tíma að ræða um, en þar bera hæst sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, sem og stærstur hluti þeirra kafla sem samningurinn nær ekki til.
Flest bendir þannig til þess að verði umsóknarferlinu að Evrópusambandinu haldið áfram eigi það eftir að taka mörg ár enn miðað við þann hraða sem verið hefur á því til þessa og þann árangur sem náðst hefur á þeim tíma. Ekki síst ef bíða á þess að efnahagsvandi evrusvæðisins verði leystur líkt og utanríkisráðherra virðist leggja áherslu á.