Mikil stemning ríkir meðal þjóðhátíðagesta sem bíða Herjólfs í Landeyjahöfn. Eins og gefur að skilja er fiðringur í mannskapnum sem hyggst sækja þjóðhátíð í Eyjum, en að sögn Stefáns Níels Guðmundssonar, umsjónarmanns öryggismála hjá Landeyjahöfn ganga ferðirnar vandkvæðalaust fyrir sig.
„Hér eru allir í glimrandi góðu skapi enda ákveðnir í að skemmta sér. Hegðun fólks er til fyrirmyndar og í raun ekki undan neinu að kvarta,“ segir Stefán. Hann segir eina áhyggjuatriðið vera umferð um Suðurlandið vegna Ungmennamóts UMFÍ sem fram fer þessa helgi, og beinir þeim tilmælum til gesta mótsins að keyra frekar þrengslin og biður þjóðhátíðargesti að halda sig við þjóðveginn.
Heiða Haraldsdóttir beið þolinmóð eftir Herjólfi þegar blaðamaður náði tali af henni, en hún sækir nú þjóðhátíð í áttunda skiptið. „Það er einfaldlega allt skemmtilegt við þjóðhátíð; stemningin, fólkið og andrúmsloftið,“ segir hún. Heiða fer með vinkvennahópi sínum og gistir í heimahúsi og segir það vera ákveðinn lykil að ánægjulegri upplifun. „Það er nauðsynlegt að komast í sturtu því ekki er gaman að bíða í klukkutíma í röð í sundlauginni,“ segir hún.
Þegar hún er innt eftir hápunkti hátíðahaldanna stendur ekki á svörum: „Brekkusöngurinn.“ Hún segist einnig nokkuð spennt fyrir tónleikum Botnleðju en tónlistardagskráin er þéttskipuð á þjóðhátíð í ár.