Drög komin að landsskipulagsstefnu

Mynd er úr safni.
Mynd er úr safni. mbl.is/Rax

Tekin hafa verið saman drög að samræmdri stefnu ríkisins um skipulagsmál og gert er ráð fyrir því að kynna þau á samráðsfundi sem haldinn verður 17. ágúst næstkomandi. Er sagt frá þessu á veg Skipulagsstofnunar.

Í september fyrir tveimur árum var samþykkt á Alþingi frumvarp til nýrra skipulagslaga og tóku þau gildi 1. janúar 2011. Með þeim var sett ákvæði um landsskipulagsstefnu og er það í verkahring umhverfisráðherra að leggja fram þingsályktunartillögu um landsskipulagsstefnu til tólf ára.

Í henni skal felast endurskoðun á gildandi landsskipulagsstefnu þegar þörf er á ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála.

Í skýrslu Skipulagsstofnunar kemur m.a. fram að í landsskipulagsstefnu skal setja fram: Yfirlit um stefnu stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun, greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála, samræmda stefnu ríkisins um skipulagsmál og stefnu um skipulagsmál miðhálendis.

Umhverfisráðherra leggur áherslu á endurskoðun á stefnumörkun fyrir skipulag miðhálendis, skipulagsmál á haf- og strandsvæðum og búsetumynstur en það hugtak tekur til dreifingar og þéttleika byggðar og búsetu í þéttbýli og dreifbýli.

Í bréfi ráðherra segir t.a.m. um búsetumynstur:

„Í tillögu að landsskipulagsstefnu verði sett almenn stefna fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga þar sem bent er á þá þætti byggðarmynsturs, svo sem þéttleika byggðar, dreifingu búsetu, tegundar landnotkunar, samgöngur, skipulag þjónustukjarna og önnur atriði sem stuðla að aukinni sjálfbærni, þ.e. samþættingu umhverfis-, félagslegra og efnislegra þátta. Sérstök áhersla verði lögð á að draga fram gildi náttúruverndar fyrir sjálfbærni í byggðamynstri. Skipulagsgerðin þarf að grundvallast á heildarsýn á náttúrufar viðkomandi sveitarfélags og hafa vistkerfisnálgun að leiðarljósi.“

Gerð er grein fyrir áherslum ráðherra í skýrslunni, meginforsendum, samráði, áherslum og sviðsmyndum, skilgreiningu stefnukosta og nálgun við umhverfismat. Á þeim grunni eru svo settar fram tillögur.

Fyrir áhugasama er vert að benda á að drögin eru birt á heimasíðu stofnunarinnar þar sem bæði er hægt að kynna sér efni skýrslunnar og koma athugasemdum á framfæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert