Fyrirtaks ferðaveður í kortunum

Veðurspá klukkan 12 á hádegi á morgun af veðurvef mbl.is.
Veðurspá klukkan 12 á hádegi á morgun af veðurvef mbl.is. www.mbl.is/frettir/vedur/

Besta veðrið á laugardaginn verður í Húsafelli, 18°C og heiðskírt, en á sunnudaginn hafa Egilsstaðir og Hella vinninginn, þar verður 17°C hiti. Fyrirtaks ferðaveður verður víðast hvar um helgina og gangi spár eftir verður lítil sem engin úrkoma.

Þetta kemur fram á Veðurvef mbl.is.

Þar eru birtar spár frá Veðurstofu Íslands og norsku veðurspásíðunni Yr, sem er samstarfsverkefni norska ríkissjónvarpsins og norsku veðurstofunnar.

Hiti er víða á bilinu 13-17°C um hádegisbilið á laugardaginn, gangi spár eftir. Á Akureyri er spáð 12-14°C á hádegi og þar verður heiðskírt. Svipuðu veðri er spáð í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri er spáð 14-16°C og þar verður skýjað.

Á sunnudaginn sjást svipaðar hitatölur. Til dæmis er spáð 14-15°C og heiðskíru á Egilsstöðum klukkan 12 á hádegi, í Bolungarvík er spáð 12-13°C og þar verður skýjað og á Blönduósi er spáð 13°C og skýjuðu.

Víða fer að þykkna upp á mánudaginn. Skýjað eða alskýjað verður um mestallt land og sums staðar gæti komið lítilsháttar væta.

Gangi spár eftir verður 12-14°C í Reykjavík á hádegi á laugardaginn og skýjað. Svipað hitastig verður á sunnudaginn og alskýjað. Einnig verður alskýjað á hádegi á mánudag og þá verður hiti 13-14°C.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert