Ölvun og óspektir í Eyjum

Töluverður erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt og í gærkvöldi, en talsverður fjöldi fólks er nú kominn þangað á þjóðhátíð. Mikið var um ölvun, ýmsan ágreining og minni háttar líkamsárásir, að sögn lögreglu og þurftu þrír að leita læknisaðstoðar eftir slík átök.

Húkkaraballið var haldið í gær og var þar mikill fjöldi, en að auki var margt um manninn á öldurhúsum bæjarins.

Þá gistu fimm fangaklefa í Eyjum, fjórir karlar og ein kona vegna ölvunarástands. Að auki var karlmaður tekinn, grunaður um ölvun við akstur.

Lögreglan í Vestmannaeyjum býst við annasamri helgi og hefur henni borist allnokkur liðsstyrkur ofan af fastalandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert