Nafn dagsins hálfgert öfugmæli

Stefán Einar Stefánsson formaður VR.
Stefán Einar Stefánsson formaður VR. Kristinn Ingvarsson

Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, leggur til að þeir verslunarmenn sem vinna á frídegi verslunarmanna fái aukafrídag á móti. Þessi hugmynd hefur fengið lítinn hljómgrunn hjá verslunareigendum, en Stefán hyggst beita sér fyrir henni í næstu kjarasamningum.

„Auðvitað hefur maður ákveðinn skilning á þessari þjónustuþörf, en ég hef bent á að ef menn vilja virða þennan frídag og þessa hugmynd frá árinu 1894 um sérstakan frídag verslunarmanna, þá eigi þeir sem vinna þennan dag að fá stórhátíðarálag auk þess að fá frídag annan eða þriðja mánudaginn í ágúst,“ segir Stefán. 

Hann kynnti þessar hugmyndir fyrir ári, en hefur lítinn hljómgrunn fengið. „Ég veit ekki til þess að nein fyrirtæki séu með þetta fyrirkomulag og ég hef lítil viðbrögð fengið, neikvæð eða jákvæð. En það myndi ég gjarnan vilja sjá. Þetta er ekki fyrsta eða stærsta krafan okkar í næstu kjarasamningum, en þetta er hálfgert prinsippatriði.“

Verður þetta ein af kröfunum í næstu kjarasamningum?

„Ég er ekki einn um að móta þá kröfugerð, að henni koma þúsundir félagsmanna. En ég mun gera það að tillögu minni og beita mér fyrir því að þetta verði að veruleika,“ segir Stefán.

En er hugtakið frídagur verslunarmanna ekki öfugmæli, þar sem verslunarfólk er ein af fáum stéttum sem eru við störf á þessum degi? 

„Jú, það má segja það. Þarfir þjóðfélagsins hvað varðar þjónustu hafa breyst og það er auðvitað sjálfsagt að koma til móts við það. En við verðum líka að muna að þetta er dagur til heiðurs verslunarstéttinni og við eigum að bera meiri virðingu fyrir henni en gert er í dag,“ segir Stefán.

Sundlaugar víða opnar og sumar matvörubúðir

Þjónusta verslana og ýmissa þjónustustofnana verður með misjöfnum hætti um helgina.

Sundlaugar verða víðast hvar opnar. Þær verða opnar samkvæmt hefðbundnum helgarafgreiðslutíma um helgina og verða einnig opnar á þeim tíma á mánudaginn.

Á laugardag og sunnudag verður hefðbundinn helgarafgreiðslutími í öllum verslunum Bónuss, en þær eru allar lokaðar á mánudaginn. Verslanir Krónunnar verða sömuleiðis opnar um helgina samkvæmt hefðbundnum afgreiðslutíma, en um helmingur þeirra verður opinn á mánudaginn.

Á laugardag og sunnudag verða verslanir Nettó verða opnar samkvæmt venju, en á mánudaginn eru þær flestar lokaðar. Verslanir Samkaupa-Úrvals og Strax verða opnar um helgina og sumar þeirra verða opnar á mánudaginn eftir hádegi.

Verslanir Kaskó verða opnar á laugardaginn, en þar verður lokað á sunnudag og mánudag.

Verslanir Hagkaupa verða opnar um helgina, þó er verslunin í Kringlunni lokuð á sunnudaginn. Allar Hagkaupaverslanirnar eru síðan lokaðar á mánudaginn, fyrir utan þær fjórar verslanir sem eru með sólarhringsafgreiðslu.

Þá verða verslanir Nóatúns opnar alla helgina og einnig á mánudaginn frá klukkan átta á morgnana til miðnættis.

Nánari upplýsingar um afgreiðslutíma verslana má finna á vefsíðum þeirra.

Fjölmargar matvöruverslanir eru opnar á mánudaginn, frídag verslunarmanna.
Fjölmargar matvöruverslanir eru opnar á mánudaginn, frídag verslunarmanna. Jim Smart
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert