Heimsmeistarinn vann á David Brown

Verðlaunahafarnir brostu sínu blíðasta.
Verðlaunahafarnir brostu sínu blíðasta. mynd/Sigurður Sigmundsson

Mikill mannfjöldi er nú á Flúðum og nýtur veðurblíðunnar. Meðal árlegra atburða er heimsmeistarakeppni í traktorstorfæru á gömlum traktorum í gömlum farvegi Litlu-Laxár.

Vaxandi áhugi hefur verið á keppninni ár frá ári og áhorfendafjöldi eftir því. Ellefu keppendur tóku þátt í henni að þessu sinni á tíu dráttarvélum, sú elsta síðan 1958 og þær yngstu frá áttunda áratugnum.

„Þeir keppa í gömlum árfarvegi hjá Litlu-Laxá. Þar er lögð braut með hólum og pyttum. Það eru beygjur og sveigjur og ýmsar þrautir sem þau þurfa að komast í gegnum. Voru mikil tilþrif á hjólunum, á þremur dekkjum og allavega,“ sagði Erla Jóhannsdóttir, formaður Torfæruklúbbs Suðurlands, sem stóð fyrir mótinu að þessu sinni í fyrsta skipti.

„Björgunarsveitin Eyvindur sagði sig frá mótinu þar sem hún var ekki innan ÍSÍ og því ekki með öll tilskilin leyfi,“ sagði Erla en torfæruklúbburinn hefur verið til um nokkurt skeið. Klúbburinn hefur haldið torfærukeppnir, meðal annars á Blönduósi og nú síðast í júlí þegar stór torfærukeppni var haldin í Vestmannaeyjum.

Helgi Jónsson frá Svínavatni, á David Brown-dráttarvél, vann keppnina í ár. Í öðru sæti varð Jósef Geir Gunnarsson á 1978-módeli af Massey Ferguson 135. Í þriðja sæti varð Óskar Ingvi Sigurðsson á Ford 3000.

Segir David Brown henta mjög vel í keppnina

„Þetta er mjög hentug dráttarvél í þetta. Mörkin eru 50 hestöfl, þeir mega ekki vera stærri, en hann er 46 hestöfl. Þungur að aftan og frekar langur á milli hjóla og með góðar bremsur þegar maður er að taka beygjur í vatninu. Þegar maður tekur beygjurnar hjálpar maður með að bremsa öðru hjólinu og það er samspil af því,“ segir Helgi Jónsson, sigurvegari keppninnar, um um hvað þurfi til að sigra í svona keppni og bætti við: „Traktorinn er svona 70% og svo gengi þetta ekki ef það er ekki góður ökumaður líka.“

Hann var að taka þátt í þriðja skipti núna. Fyrsta árið lenti hann í þriðja sæti. Í fyrra í öðru sæti og sigraði nú.

„Það var nú lagt af stað í þetta sem skemmtanagildi, en ekki endilega metnaður að vera í fyrsta sætinu,“ sagði Helgi inntur eftir því hvort hætta ætti á toppnum og bætti við: „Kannski maður trappi sig bara aftur niður.“

Um aldurinn á dráttarvélinni sagði hann: „Hann er frá bilinu 1965 til 1971, ég man það ekki nákvæmlega. Ég held að hann hafi verið keyptur nýr að bænum Gelti í Grímsnesi á sínum tíma.“

Verðlaun fyrir tilþrif fékk Guðmundur Hreinn á Zetor

Veitt voru sérstök verðlaun fyrir tilþrif sem Guðmundur Hreinn Gíslason hlaut en hann keppti á 1976-módeli af Zetor 4718.

Keppnin er ekki ný af nálinni og hefur verið haldin í nágrenni Flúða öll árin í tengslum við verslunarmannahelgi frá því um síðustu aldamót.

Helgi Jónsson sést hér á fullri ferð.
Helgi Jónsson sést hér á fullri ferð. mynd/Sigurður Sigmundsson
Mikið fjölmenni var á staðnum þegar keppnin fór fram í …
Mikið fjölmenni var á staðnum þegar keppnin fór fram í blíðskapaveðri í árfarvegi Litlu-Laxár. Ljósmynd/Gunnar Karl Gränz
11 keppendur á 10 dráttarvélum tóku þátt að þessu sinni …
11 keppendur á 10 dráttarvélum tóku þátt að þessu sinni í traktorstorfærukeppninni á Flúðum. Ljósmynd/Gunnar Karl Gränz
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert