Talið er að um fimm þúsund manns séu samankomnir á Síldarævintýrinu á Siglufirði í sól og um 15 stiga hita. Góð stemning er í bænum að sögn Guðmundar Skarphéðinssonar, framkvæmdastjóra hátíðarinnar.
„Þetta er alveg æðislegt og gengur allt vel og engir pústrar í nótt, eða eins og lögreglan sagði allt var friðsælt og gott,“ sagði Guðmundur.
„Ég held að það verði á þessi bili, kannski um fimm þúsund manns. En hér er mikið rennirí í dag og hér er bara sól og blíða og alveg dásamlegt fyrir fólk að vera hérna,“ sagði Guðmundur um væntingar um aðsókn á hátíðina.
„Það eru markaðir hérna á Rauðkutorgi og síðan erum við á torginu með Síldarævintýrið sjálft og þar eru hljómsveitir og trúbadorar með alls konar uppákomur og kynnir hjá okkur er Sóli Hólm,“ sagði Guðmundur um það sem framundan er á hátíðinni í dag.