Voru að í alla nótt

„Við vorum þarna í alla nótt. Við vorum lausir um tíu í morgun,“ segir Þorbjörn Jóhann Sveinsson, slökkviliðsstjóri á Ísafirði, um slökkvistarfið við Laugarbólsvatn í gærkvöldi í og nótt. Stórt svæði varð eldi að bráð en engan sakaði.

Tíu slökkviliðsmenn tóku þátt í slökkvistarfinu, sex frá Súðavík og fjórir frá Ísafirði, ásamt bændum í Laugardal, sem er inni í Ísafjarðardjúpi. Slökkvilið Súðavíkur var kallað út kl. 16 í gær og það óskaði eftir aðstoð Ísfirðinga kl. 19.

Þorbjörn segir yfirgnæfandi líkur á því að eldurinn hafi kviknað út frá logandi sígarettu, en gróður var mjög þurr. „Þarna eru engir nema veiðimenn,“ segir slökkviliðsstjórinn.

Að sögn Þorbjarnar var svæðið vaktað í nótt enda rauk töluvert úr gróðrinum. „Það logaði hér og þar áfram í lynginu,“ segir hann.

Þá segir hann að svæðið hafi verið erfitt yfirferðar fyrir slökkviliðsbílana. „Það er ekkert hægt að koma bílum þarna að. Við vorum með mikið af slöngum og það tekur tíma að draga þetta. Það er heilmikil handavinna í þessu.“

Aðspurður segir hann að engin hús hafi verið í hættu og það sama eigi við um fólk. Þarna sé vegur sem skeri móinn í sundur og því hafi eldurinn ekkert getað farið yfir veginn. Hinum megin sé vatnið og því brann eldurinn aðeins á afmörkuðu svæði.

Ekki liggur fyrir með nákvæmum hætti hversu stórt svæði brann í eldinum, en Þorbjörn telur að um nokkra hektara sé að ræða.

Hann segir að slökkvistarfinu hafi formlega lokið um kl. átta í morgun. Frágangur á vettvangi hafi síðan tekið um tvær klukkustundir.

Þorbjörn segir að margar slöngur hafi skemmst í gær. „Þær brenna náttúrlega, þó að það sé vatn á þeim,“ segir hann.

Málið er í rannsókn.

Hafa náð tökum á eldinum

Enn logar við Laugabólsvatn

Sinueldur við Laugabólsvatn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert