Fjórir slösuðust í bílveltu

Þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi. Myndin er úr safni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi. Myndin er úr safni. mbl.is/Sigurgeir

Fjórir slösuðust þegar bifreið valt og hafnaði utan vegar á Skeiða- og Hrunamannavegi við afleggjarann að Auðsholti á fjórða tímanum í nótt. Einn reyndist meira slasaður en hinir og var kallað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar sem sótti hinn slasaða og flutti hann til Reykjavíkur.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi var maðurinn, sem var ökumaður bifreiðarinnar, meðvitundarlaus en hann rankaði eitthvað við sér síðar. Nánari upplýsingar um líðan hans liggja ekki fyrir.

Hinir þrír sem slösuðust voru fluttir á Selfoss til aðhlynningar með sjúkrabifreið.

Tilkynning um slysið barst lögreglu um kl. 3:30 í nótt. Um klukkustund síðar var þyrla Gæslunnar komin á vettvang og var sá slasaði lentur við Landspítalann í Fossvogi um kl. fimm í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert