Lögreglan í Vestmannaeyjum handtók í gærkvöldi karlmann sem er grunaður um að hafa nauðgað konu á þjóðhátíðinni í Eyjum í fyrrinótt. Maðurinn er nú í haldi lögreglunnar.
Maðurinn, sem er 22 ára gamall, er grunaður um að hafa nauðgað konu í tjaldi aðfaranótt laugardags og var hann handtekinn í Herjólfsdal.
Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Eyjum, segir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi strax legið undir grun og var búið að dreifa myndum af honum til lögreglumanna og starfsmanna sem sinna gæslu á hátíðarsvæðinu.
„Það stóð yfir leit að honum og hann fannst í gærkvöldi í Herjólfsdal,“ segir Jóhannes.
Hann segir að lögreglan á Selfossi hafi forræði yfir rannsókn á kynferðisbrotamálum í Vestmannaeyjum. Von sé á lögreglumönnum þaðan í dag og væntanlega verði maðurinn fluttur á Selfoss þar sem tekin verður af honum skýrsla.
Aðspurður segir Jóhannes að nóttin sem leið hafi verið mun betri en nóttin á undan. „Það var einhvern veginn betra stand á fólkinu og það var einstaklega gott veður, hlýtt og milt,“ segir hann.
Þá segir hann að tveir til viðbótar hafi gist fangaklefa lögreglunnar í nótt. Annar út af ölvunarbroti en hinn út af fíkniefnamáli.
Alls hafa komið upp 40 fíkniefnamál á hátíðinni. Flest þeirra tengjast neysluskömmtum á kannabisefnum og hvítum efnum á borð við amfetamín og kókaín.