Til átaka kom á veitingastað á Akureyri um kl. hálffjögur í nótt þegar tveir menn réðust á lögreglumenn sem ætluðu að fara loka staðnum, en staðurinn hafði ekki leyfi til að hafa opið á þessum tíma.
Til orðaskaks kom á milli lögreglunnar og tveggja manna sem tengjast rekstrinum, en eru ekki rekstraraðilar staðarins. Það endaði með því að þeir réðust á lögreglumennina og brutust út átök. Enduðu þau með því að lögreglan beitti bæði kylfum og piparúða á annan manninn sem hafði sig meira í frammi.
Allt tiltækt lögreglulið var kallað á staðinn og voru mennirnir tveir handteknir og eru nú vistaðir í fangageymslu lögreglunnar.
Tveir lögreglumenn urðu að leita sér aðhlynningar á slysadeild í kjölfar átakanna. Þeir eru hins vegar ekki alvarlega slasaðir. Annar árasarmannanna var einnig fluttur á slysadeild til læknisskoðunar.
Þá var fjölmenni á staðnum sem lögreglan þurfti að vísa út.
Alls gista sjö menn í fangageymslum lögreglunnar eftir nóttina, m.a. vegna ölvunar og ósepkta.
Þá komu upp þrjú fíkniefnamál í nótt, en í öllum tilvikum var um að ræða maríjúana.
Einn var tekinn ölvaður við stýrið og annar ökumaður var undir áhrifum fíkniefna.
Frá því kl. 18 sl. föstudagskvöld hefur 141 verkefni verið skráð í dagbók lögreglunnar.