Rétt fyrir miðnætti barst lögreglunni í Vestmannaeyjum tilkynning um mann sem misst hafði meðvitund í brekkunni í Herjólfsdal. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að læknir, hjúkrunarfræðingur og bráðatæknir ásamt lögreglumönnum hafi verið nærstaddir. Lífgunartilraunir hófust þegar í stað og héldu áfram á sjúkrahúsi. Þær báru hins vegar ekki árangur.
Lögreglan segir að um heimamann sé að ræða og að hugur allra bæjarbúa sé hjá aðstandendum hans.
„Á daglegum samráðsfundi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum með viðbragðsaðilum var farið yfir verkferla sem tengdust andlátinu og voru þeir sammmála um að viðbrögð allra sem að komu hefðu verið skjót og rétt,“ segir í tilkynningunni.